föstudagur, febrúar 08, 2002

Fiðlarinn á þakinu

Leiklistarhópur Umf. Eflingar
Breiðumýri í Reykjadal föstudaginn 8. febrúar 2002.

Höfundar: Joseph Stein, Jerry Bock og Sheldon Harnick byggt á sögum eftir Sholem Aleichem.
Þýðandi: Þórarinn Hjartarson
Leikstjóri: Arnór Benónýsson
Tónlistarstjórn: Jaan Alavere og Valmar Väljaots

Trúir þú á kraftaverk?

ÞAÐ er auðséð í hverju smáatriði í sýningu leiklistarhóps Umf. Eflingar á Fiðlaranum á Þakinu að fólkið í þessum afskekkta íslenska dal stendur nærri fólkinu í Anatevka sem eru yrkisefni verksins. Svo eðlileg og áreynslulaus var persónusköpun flestra og svo innileg mörg atriðin að það mátti næstum trúa að einmitt þarna hafi þetta þorp staðið rétt fyrir byltingu og þrjóskir og íhaldssamir kallarnir verið þingeyskir bændur en ekki rússneskir gyðingar. Þessi tilfinning er hinn stóri styrkur sýningarinnar og á stærsta þáttinn í að gera hana að ákaflega áhrifamikilli leikhúsupplifun.

Það spillir auðvitað ekki fyrir að verkið er frábær smíð, einhver elskulegasti söngleikur sem Broadwaymaskínan hefur getið af sér. Og hjarta verksins slær í Tevye, mjólkurpóstinum með lærdómsdraumana sem getur ekki frekar en aðrir stöðvað tímans þunga nið og verður að læra að bogna til að brotna ekki þegar dætur hans hver af annari brýtur aldagamlar hefðir við val á maka. Tvær gildrur gapa við hverjum leikara sem glímir við Tevye; að gera hann fyndinn með því að undirstrika einfeldni hans og að beita afli við að gera hann aðlaðandi, nokkuð sem er lenska í söngleikjauppfærslum um allan heim. Jón Friðrik Benónýsson fellur í hvoruga gryfjuna og uppsker ríkulega. Hann er algerlega trúverðugur sem þessi erfiðismaður sem reynir að glíma við vandamálin með eigin brjóstviti og er þess vegna nógu stór til að brjóta hefðir sem nágrannarnir og forfeðurnir gátu ekki. Og af því Jón er trúverðugur er Tevye auðvitað aðlaðandi - og fyndinn. Við hlægjum að honum og grátum með honum.

Fleiri eiga stjörnuleik. Jóhanna M. Stefánsdóttir er Jóni verðugur mótleikari sem eiginkonan Golda. Motel klæðskeri verður hlægilegt grey hjá Karli Ingólfssyni og ekki minnist ég þess að hafa heyrt “kraftaverkasönginn” betur sunginn. Aðalbjörg Pálsdóttir er óborganleg sem hjúskaparmiðlarinn Yenta og besta dæmið um það sem ég sagði í upphafi um hvernig Reykdælir hafa gert verkið að sínu.

En þrátt fyrir þessi einstaklingsframlög er sýningin sigur hópsins og leiðtoga hans, galdrakarlanna þriggja, Arnórs Benónýssonar, Jans Alavere og Valmars Väljaots. Arnór hefur laðað fram styrkleika hvers einasta leikara. Helst saknaði ég skýrari meðhöndlun á hinni dökku hlið verksins, samskiptum söguhetjanna við rússneska kúgarann. Og halinn sem hefur verið prjónaður á verkið þótti mér ekki góð hugmynd. Vissulega mátti finna hnökra á sumum tónlistaratriðunum, en vegna þess að sýningin er einlæg og raunsæisleg og áherslan er ekki á “sjó” verður það ekki til að spilla ánægjunni til neinna muna. Og sum þeirra eru hreint frábær, svo sem fyrrnefndur söngur Motels, kveðjusöngur Hodel hjá Hönnu Þórsteinsdóttur, ástarjátning Goldu og Tevyes og tvö erfiðustu stórnúmerin, upphafssöngurinn og draumur Tevyes. Fjórði stórmeistarinn er svo Þórarinn Hjartarson, en þýðing hans er snilldarverk og hljómar auðvitað best með norðlenskum hreim.

Með sýningunni á Fiðlaranum eru tekin af öll tvímæli um að leiklistarhópur Umf. Eflingar er um þessar mundir eitt sterkasta áhugaleikfélag landsins. Þau hafa tekist á við vandasamt og viðkvæmt verk og skila því með hjartanu beint í hjarta áhorfenda. Það er mikið á sig leggjandi til að sjá þessa sýningu.