sunnudagur, október 29, 2000

Stræti

Stúdentaleikhúsið


Loftkastalinn 29. október 2000

eftir Jim Cartwright
Þýðandi: Árni Ibsen
Leikstjóri: Elvar Logi Hannesson

Öngstræti tilverunnar

ÞAÐ er ekki um að villast, Stúdentaleikhúsið er komið til að vera - enn einu sinni. Eftir frábæra uppfærslu á Tartuffe síðastliðið vor ráðast þau nú í stóra, mannmarga og viðamikla sýningu og láta sig ekki muna um að innrétta leikhús í einu af ónýttum rýmum í húsakynnum Loftkastalans. Vonandi er krafturinn og vinnugleðin sem greinilega er til staðar nægileg til að gera félagið að langlífum og varanlegum pósti í leiklistarflórunni.

Minna hefur borið á Jim Cartwright undanfarið en þegar hann var ljúflingur íslenskra atvinnuleikhúsa fyrir nokkrum árum. Þó tel ég að óhætt sé að spá bæði Stræti og Bar-Pari langra lífdaga á verkefnaskrám áhugaleikfélaga. Persónur og kringumstæður dregur Cartwright einatt skýrum dráttum og hlutverkin langflest bitastæð. Og þó hann sé kannski ekki djúpvitrasti samfélagsrýnir í flokki leikskálda, né næmastur á fínhreyfingar sálartötursins þá búa verk hans yfir skáldlegum krafti og samúð með mannskepnunni, sérstaklega þegar brölt hennar er hvað óliðlegast. Þetta er áberandi í Stræti, svipmynd af örvæntingarfullum tilraunum vonleysingja úr enskri lágstétt til að gleyma hlutskipti sínu og skemmta sér, eða í það minnsta slökkva á sálinni eina kvöldstund.

Sýningin er ákaflega vel saman sett. Leikurinn var afar jafngóður þó margir eigi reyndar aðdáanlega spretti, svo margir að betra er að láta þá upptalningu eiga sig. Umfram allt var sönn „ensamble“-tilfinning í hópnum, sýningin er greinilega sameiginlegt átak sem hópurinn allur stendur með og ber fram fyrir áhorfendur með stolti og gleði. Umgjörðin er stílhrein og búningar við hæfi.

Elvar Logi og leikhópur hans velur að leggja áherslu á léttleika og húmor verksins. Þetta er skiljanlegt val, sérstaklega hvað varðar eldri persónurnar sem ungir leikararnir hafa varla tök á að ná í botninn á. Þó þótti mér sem stundum mætti sýningin reyna aðeins minna að vera skemmtileg. Grínið og fjörið setur ákveðna fjarlægð á ömurleikann og sorgina í lífi persónanna sem gerir áhorfendum kannski erfitt fyrir að lifa sig inn í hlutskipti þeirra. Hin prýðilega vel spilandi hljómsveit hafði áhrif í sömu átt, truflaði samband sviðs og salar, bæði með frammíköllum og sambandi sínu við persónurnar, en líka stundum með semmningstónlistinni, gerði sýninguna að meira „sjói“ en kannski er æskilegt. Endirinn, þegar persónurnar eygja von um fullkomnara líf með sönnum tilfinningum, ást og skilningi, missir nokkuð af áhrifamætti sínum ef ástandið sem þær vilja flýja hefur verið málað svo grallaralegum litum.

En hvað sem þessum efasemdum líður þá er sýningin sjálfri sér samkvæm og heilsteypt listaverk sem Stúdentaleikhúsið má vera stolt af. Það er óhætt að hvetja leikhúsunnendur til að leggja leið sína vestur í bæ og fylgjast með næturlífinu í Strætinu eina kvöldstund.