miðvikudagur, október 18, 2000

Hátíð morðingjanna

Leikskólinnn
Miðvikudagurinn 18. október 2000

Sýning byggð á tveimur verkum eftir Jean Genet, NáVígi í þýðingu leikstjóra og hóps og Vinnukonunum í þýðingu Vigdísar Finnbogadóttur.
Leikstjóri: Agnar Jón Egilsson

Fagurfræði minnipokans

HÁTÍÐ morðingjanna er samsteypa leikstjórans og hópsins á tveimur fyrstu leikritum franska leikskáldsins og utangarðsmannsins Jean Genet, Vinnukonunum og NáVígi, sem hópurinn kýs að kalla svo. Þó svo að gera megi ráð fyrir að sú ákvörðun að steypa þeim saman byggist á þörfum og stærð leikhópsins fyrst og fremst, þá fer ekki hjá því að þau varpa líka ljósi hvort á annað og ekki síður hvílíkt stökk list höfundarins tekur frá því fyrra að því síðara.
Viðfangsefni þeirra eru náskyld en umbúðirnar ólíkar. Öfugsnúinn heimur tugthúslimanna í NáVígi þar sem virðing ræðst af ódæðisverkum á sér hliðstæðu í sjálfskipaðri ánauð vinnukvennanna sem fá útrás fyrir hatur sitt á húsmóðurinni með afskræmislegum hlutverkaleikjum, undirferli og svikum. Í báðum verkum skoðar Genet hlutskipti minnipokamannsins og þá skammlífu sáluhjálp sem leita má með speglun eigin eymdar í því sem gæti virst betra líf, en er oftar en ekki tálsýn, til orðin af þörfinni fyrir drauminn.
Með NáVígi sýnir Genet vissulega þá einstæðu sýn og hæfileika sem hann bjó yfir, en það er í Vinnukonunum sem leikhúsformið er orðið honum eiginlegt sem tjáningarmiðill. Þar sem tugthúslimirnir þurfa að orða hugsun höfundar til að hún komist til skila þá nægja honum aðstæður, persónur og atburðir til að ná ætlun sinni í Vinnukonunum. Það er því fróðlegt fyrir áhugamenn um leikbókmenntir að leggja leið sína til Leikskólans. Öðrum ætti að nægja sú ástæða að sýningin er sterk, áhrifarík og prýðilega leikin.
Það er ekkert púður sparað í þessari sýningu. Leikurinn er drifinn áfram með hávaða og látum, stundum á kostnað blæbrigða en alltaf af óþvinguðum sannfæringarkrafti. Fangatríóið var vel samhæft en sérstaklega vil ég minnast á Önnu Svövu Knútsdóttur sem gerði undirlægjunni Maurice góð skil, afstaða og viðbrögð æfinlega skýr. Svo er Önnu greinilega gefnir gamanleikarahæfileikar sem gaman verður að sjá hvað verður úr. Hin yfirdramatíska húsmóðir vinnukvennanna var líka góð hjá henni, þó lögnin orki kannski tvímælis, er ekki hlutskipti þernanna enn nöturlegra ef gæði og mildi frúarinnar eru afdráttarlausari? En skemmtilegt var það.
Agnar Jón hefur valið að fylgja fyrirmælum Genets og fela karlmönnum hlutverk vinnukvennanna. Mörgum hefur þótt sem þetta spenni boga verksins um of, nóg sé af hlutverkaleikjum, blekkingum og feluleik þó „dragspil“ bætist ekki ofaná, en svona vildi Genet hafa það og gaman að sjá því hlýtt. Og þó Arnar Steinn Þorsteinsson og Bjartmar Þórðarson væru ef til vill ekki fullkomlega óþvingaðir í vinnukonubúningunum sínum þá náðu þeir samt að sýna okkur inn í tættan veruleika þess sem lifir lífi sínu í skjóli og til dýrðar öðrum, af illri nauðsyn og þó af eigin hvötum.
Í heild er Hátíð morðingjanna grófslípuð sýning, yfirborðshrjúf en full af lífi og ástríðu. Þess má svo geta að í sönnum Genet-anda er eina leiðin til að nálgast miða á sýninguna að hafa samband við leikstjórann eða aðra aðstandendur hennar.