laugardagur, apríl 29, 2023

Guðrúnarkviða

Eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur. Leikstjórn Hildur Kristín Thorstensen með aðstoð frá Björk Jakobsdóttur. Leikmynd: Sverrir Jörstad Sverrisson. Búningar: Hildur Kristín Thorstensen. Lýsing: Heimir Bergmann Ólafsson. Tónlist: Ólafur Torfason. Myndband: Helgi Sverrisson. Rödd á upptöku: Óli Gunnar Gunnarsson. Leikari: Eyrún Ósk Jónsdóttir. Sett upp í samstarfi við Gaflaraleikhúsið, þar sem sýningin var frumsýnd föstudaginn 31. mars 2023.

Litlir kassar

Frumsýning einleiks Eyrúnar Óskar Jónsdóttur í Gaflaraleikhúsinu markar áfanga í langri vegferð. Ekki endilega í árum talið, en það hefur ýmislegt gengið á. Einleikurinn byggir á samnefndri ljóðsögu Eyrúnar sem kom út 2020. Sama ár er verkið forsýnt og stefnt að frumsýningu og heimsóknum á leiklistarhátíðir innanlands og utan. Heimsfaraldurinn setti sín alkunnu strik í þann reikning, en nú er Eyrún mætt með einleikinn sinn í Gaflaraleikhúsið og Björk Jakobsdóttir vinnur út frá upphaflegri leikstjórn Hildar Kristínar Thorstensen en lagar útkomuna að kröfum nýs rýmis.
Grunnhugmyndin er skýr og klár. Guðrún rankar við sér í líkkistu og með því að hlusta eftir því sem gengur á fyrir utan boxið getur hún reiknað út að þar fari fram útför hennar. Hún þarf að gera ýmislegt: ná tökum á tilfinningunum, finna leiðina út, en líka það sem öll gera hvort eð er í jarðarförum: horfa yfir farinn veg. Var til einhvers lifað?
Það hefur gengið á ýmsu. Eitt það fyrsta sem Guðrún rifjar upp er hvernig hún tók stjórnina á slysstað eftir bílslys. Sjálf slösuð, en fór sjálfkrafa í þann gír að setja annarra þarfir framfyrir sínar. Það verður síðan meginstefið í þessu uppgjöri: að hafa ekki tekist að landa aðalhlutverkinu í eigin lífi, fyrr en núna á síðustu metrunum. 
Sviðsetning Bjarkar Jakobsdóttur í einfaldri leikmynd Sverris Jörstad Sverrissonar og túlkun Eyrúnar á Guðrúnu einkennist af miklum krafti, sem vel má kalla nokkurskonar hús-stíl Gaflaraleikhússins hin síðari ár. Rýmar ágætlega við kaldhæðinn og nokkuð fjarlægan tón textans. Minnir stundum allnokkuð á uppistandsformið, enda leikkonan uppmögnuð allan tímann. Erindið er samt ekki bara að vera fyndin, Eyrúnu liggur eitt og annað á hjarta um meðvirkni, ábyrgð á eigin lífi og ýmis undarlegheit í mannlífinu. En til þess að ná fyllilega til áhorfenda með það erindi hefði þurft einlægnari tóntegund, fjölbreyttari blæ í styrk og hraða, djarfari afhjúpun persónunnar.
Þar þvælist verst fyrir tæknilegt atriði í textanum. Hann er skrifaður í annarri persónu, sem nýtur sín ágætlega í bókinni, en verður ansi truflandi í lifandi flutningi leikkonu sem við eigum að sjá verða fyrir því sem hendir hana í framvindunni. Frásagnarmátinn verður fljótt hindrun fyrir áhorfendur sem langar að trúa á það sem fram fer, og truflandi fyrir leikkonuna við að komast í traust samband við persónu sína. Nóg eru nú kringumstæðurnar undarlegar og margt skrítið samt. 
Skemmtilegastar eru upprifjanir Guðrúnar á vandræðaatvikum í lífi sínu, sem og kostulegar útvarpstilkynningar undir lokin þar sem lýst er eftir ýmsum innihaldsefnum úr hinu góða lífi: draumum, ástarþrá, sjálfi og fullnægingu. Þar fer skáldið á flug og leikhúsið fylgir eftir. 
Heildaráhrifin eru þó að hér hefði þurft að ganga lengra og nær innihaldinu, finna fjölbreyttari leiðir til að miðla því og brjótast út úr spennitreyju annararpersónuformsins. Leyfa Guðúnu að vera „ég“, svona að leiðarlokum.