sunnudagur, mars 03, 2002

Jesús Kristur Súperstjarna

Börn, unglingar og fleiri í Bústaðahverfi
Bústaðakirkju sunnudaginn 3. mars 2002

Tónlist: Andrew Lloyd Webber
Texti: Tim Rice
Þýðing: Hannes Örn Blandon og Emilía Baldursdóttir
Leikgerð og Leikstjórn: Sigrún Sól Ólafsdóttir
Hljómsveitarstjóri: Pálmi Sigurhjartarson
Söngstjóri: Jóhanna Þórhallsdóttir
Búningar: Gyða Jónsdóttir
Dansar: Cameron Corbett

Grettistak í Bústaðakirkju

ÞAÐ er ekki annað hægt en að dást að metnaði og vinnusemi þeirri sem unglingarnir í Bústaðakirkju hafa lagt í uppfærslu sína á söngleiknum Jesús Kristur Súperstjarna, eins og þau kjósa að kalla hann. Tónlistarflutningur, búningar, til allra hluta er vandað umfram það sem ætlast mætti til, og gríðarstór hópurinn siglir í gegnum sýninguna af að því er virðist áreynslulausu öryggi. Það er engu líkara en þar fari þaulvant fólk á þessu sviði.

Sviðsetningin er líka nokkuð lipur hjá Sigrúnu Sól, einfaldleikinn ræður ríkjum og nokkrar sterkar myndir setja svip á sýninguna og verða eftirminnilegar, Júdas að klifra upp kaðal til að þiggja sitt silfur, Kristur gengur húðstrýktur gegnum mannmergðina, svo tvær séu nefndar.

Verkið hefur verið stytt um trúlega helming og það hefur ekki tekist nógu vel. Sem betur fer er atburðarásin alþekkt, ellegar hefði mátt klóra sér talsvert í hausnum yfir viðburðum á sviðinu. Það er enda vandasamt að stytta svona “gegnumsungið” verk, því jafnframt því að halda sögunni til haga er erfitt að fórna flottustu númerunum, sem oftar en ekki fleyta sögunni lítt áfram. Tveir vondir kostir, og sjálfsagt að láta tónlistina ráða í uppfærslu sem þessari. Ég hef nú samt séð dæmi þess að hægt er að bjarga hvoru tveggja, en það tekst ekki hér.

Kannski hefur grunnhugmynd sýningarinnar þvælst eitthvað fyrir. Og hana á ég erfitt með að skilja, þá ákvörðun leikstjóra og hóps að færa verkið inn í innantóman og yfirborðskenndan heim hátísku nútímans. Tískukóngurinn JKS með sýningu sína í Jerúsalem? Eins og við mátti búast reynist þetta “konsept” svo snertipunktalaust við innihald og boðaskap sögunnar um líf og dauða Krists að eftir að hafa verið lagt upp með miklum látum í upphafi, hverfur það í skuggann af atburðunum og tónlistinni. Sem betur fer. Eftir standa búningarnir með “lógói” tískukóngsins á búningum áhangenda hans. Smart, en innihaldslaust, eins og hátískan.

En eins og áður var sagt er sýningin sigur fyrir aðstandendur sína þrátt fyrir þessa hnökra. Útgeislun Maríu Magdalenu (sem Hrafnhildur Sigurðardóttir og Sandara Dögg Björnsdóttir skiptu með sér), krafturinn í Þresti Sigurðssyni sem Heródes, Júdas Vilmundar Sveinssonar, og jesúsarnir tveir, þeir Gylfi Þór Sigurðarson og Hrafn Hjartarson. Frábær frammistaða. Raunar á allur hópurinn hólið skilið, hér hefur verið lyft Grettistaki, líklega af því enginn í hópnum hefur frétt að þetta er ekki hægt.