miðvikudagur, febrúar 13, 2002

Milljónamærin snýr aftur

Á Herranótt
Tjarnarbíói miðvikudaginn 13. febrúar 2002
Höfundur: Friedrich Dürrenmatt
Þýðandi: Gísli Rúnar Jónsson
Leikstjóri: Magnús Geir Þórðarson
Leikmynd og búningar: Halla Gunnarsdóttir
Lýsing: Kári Gíslason
Tónlist: Medectophobia

Réttlæti á sanngjörnu verði

ÆTLI það sé tilviljun að þau leikskáld, sem hafa skrifað af mestri skarpskyggni um siðferðisábyrgð þess sem stendur hjá þegar illvirki eru framin, eru svissnesk? Fyrir nokkrum árum var meistaraverk Max Frisch, Andorra, sýnt á Herranótt og nú er röðin komin að hinum Svisslendingnum, Friedrich Dürrenmatt, og meistaraverki hans, Der Besuch der alten Dame, sem kallast Milljónamærin snýr aftur í skemmtilegri þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar.

Ung stúlka er hrakin úr heimabæ sínum eftir að barnsfaðir hennar hefur svarið fyrir faðernið og fengið félaga sína til að segjast hafa sofið hjá henni líka. Mörgum árum síðar snýr stúlkan aftur, illa útleikin af lífinu en ”ógeðslega rík”. Bærinn er á vonarvöl, hún ein getur bjargað honum og er reiðubúin til þess með einu skilyrði; réttlæti, hefnd. Eru bæjarbúar tilbúnir að taka barnsföðurinn af lífi í skiptum fyrir endurreisn þorpsins? Hinir sómakæru íbúar Kamrahlíðingar fyllast hneykslun, en á undraverðan hátt fara hjól efnahagslífsins að snúast, og verðmiðinn sem settur er á samviskuna verður að sama skapi sanngjarnari. Eins og allar góðar dæmisögur þá hefur þessi víða skírskotun, og þó helför nasista sé nærtæk sem kveikja verksins þá leiðir það hugann víða, frá umhverfismálum að vanda þriðja heimsins og lýðskrumi og stríðsæsingum skammsýnna stjórnmálamanna. Milljónamærin snýr aftur er stórt leikrit.

Sýning Herranætur og Magnúsar Geirs er firnavel sviðsett. Hinn mikli fjöldi sem á sviðinu stendur nær að vera agaður og fullur af kraftmiklu lífi samtímis og sýningin úir og grúir af snjöllum lausnum og smáskrítnum hugdettum sem krydda hana. Svo eitt dæmi sé nefnt þá bendi ég væntanlegum áhorfendum á að horfa á tærnar á skólameistaranum meðan hann talar í símann snemma í verkinu. Snjöll leikmynd, stemmningsrík lýsing og skemmtileg tónlist styðja við sýninguna, þó sumt af textanum drukkni í músík eins og gengur.

Magnús hefur valið sýningunni nokkuð ýkjukenndan stíl í leik og útliti sem fellur að mestu skemmtilega að efninu og hentar leikhópnum vel. Þó má velta því fyrir sér hvort ekki sé verið að fórna nokkru af áhrifamætti verksins á kostnað skemmtilegheitanna. Eftir því sem ýkjurnar magnast verður erfiðara að setja sig í spor bæjarbúa, sem er þó mergurinn málsins að áhorfendur geri. Í lokin var eins og Illugi barnsfaðir væri staddur í martröð - í barnaleikriti sem farið hefði af sporinu. Ef ósköp venjulegir, raunsæir og “góðir” smáborgarar eins og hann hefðu komið í stað fábjánanna í gulu skónum hefði gæsahúð áhorfenda eflaust orðið þéttari. En líklega hefði skemmtigildið rýrnað, og vissulega skyldi lokamyndin eftir sig allnokkra gæsahúð. Og útfærsla leiðarinnar sem valin er tekst allt að því fullkomlega.

Þetta er sýning fyrir allan hópinn til að vera stoltan af. Mikið mæðir vissulega á aðalleikurunum, Árna Agli Örnólfssyni í hlutverki Illuga elskhuga og Sunnu Maríu Schram sem túlkar hina einfættu refsinorn Kamillu Trumpgates (Dýrðlegt nafn hjá Gísla). Þau standa sig vonum framar, og Sunna fer hreinlega á kostum í sinni stjörnurullu. Árni á erfiðara verkefni, að vera venjulegur maður í martröðinni, en rósemd og innlifun hans í lokaatriðum verksins var sterk og sönn. Margir aðrir verðskulda að vera nefndir á nafn, of margir til að hægt sé að byrja á því í stuttum pistli. Látum nægja að taka ofan fyrir hinni fornfrægu og síungu Herranótt, sem leysir hér erfitt verkefni á framúrskarandi hátt.