sunnudagur, nóvember 12, 2000

Óvitar

Leikfélag Selfoss
Leikhúsinu við Sigtún, Sunnudagur 12. nóvember 2000

Höfundur: Guðrún Helgadóttir
Leikstjóri: Ólafur Jens Sigurðsson

Stórt enn

EINHVERN veginn hef ég á tilfinningunni að samskipti barna og fullorðinna hafi þróast til betri vegar síðan Guðrún Helgadóttir skrifaði óvita á Barnaárinu 1979. Ég held (kannski er það óskhyggja) að það sé hlustað meira á börn, þau njóti meiri virðingar og þörfum þeirra sýndur betri skilningur nú en þá. Og ef svo er þá er loksins hægt að horfa á Óvita úr þeirri fjarlægð sem ein sker úr um hvort verkið lifir eður ei.

Og það lifir svo sannarlega. Alveg burtséð frá hinni fullkomlega ómótstæðilegu grunnhugmynd þá er bæði fléttan svo vel byggð, aðalpersónurnar svo eðlilegar og skýrar og samtölin svo skemmtileg að ég set Óvita hiklaust við hliðina á Kardimommubænum hans Egners og leikgerðunum á Astrid Lindgren. Húrra fyrir Guðrúnu. Af hverju hefur hún ekki skrifað fleiri leikrit? Hefur hún aldrei verið beðin um það? Eða vill hún það ekki? Ef eitthvert núlifandi íslenskt leikskáld getur skrifað betri senu en þegar vinnualkinn faðir Guðmundar syngur úr sér samviskubitið yfir vanrækslunni á börnunum án þess að átta sig á að það er ekki Guðmundur sem hann ávarpar heldur strokudrengurinn Finnur, þá þætti mér gaman að vita hver það er.
Óvitar veita leikfélögum fágætt tækifæri til að leiða saman krafta af öllum kynslóðum. Bæði til að leika saman en líka og ekki síður til að spegla atferli hvers annars, börnin sýna okkur fullorðna fólkinu hvernig þau sjá okkur og við fáum útrás fyrir barnið sem við erum, að við höldum, vaxin upp úr. Og viðsnúningurinn setur síðan viðhorfin, fordómana og skeytingarleysið sem við sýnum hvort öðru undir myndvarpann og gerir allt svo augljóst og klárt.

Það er ekki heiglum hent að koma sýningu á borð við þessa fyrir á sviðinu í litla leikhúsinu þeirra Selfyssinga. Óvitar er mannmargt leikrit, þó sumir taki ekki mikið pláss, og það gerist á mörgum stöðum, þó aðallega á einu heimili sem þýðir að mest verður að leggja í þá mynd og láta hinar mæta afgangi. Ólafur Jens hefur leyst þetta verkefni prýðilega, þó stundum örlaði á vandræðagangi hjá leikhópnum við að komast leiðar sinnar um sviðið. Oft var hann reyndar viðeigandi, enda húsakynnin hönnuð með þarfir hinna fullorðnu, hinna litlu, í huga.

Af leikhópnum mæðir mest á Guðmundi og fjölskyldu hans. Ég hygg ekki að á neinn sé hallað þó ég segi að Guðmundur Karl Sigurdórsson í hlutverki nafna síns beri þessa sýningu uppi. Guðmundur er fullkomlega eðlilegur sem hjartagóði lúðinn sem er alltof stór, en líklega þroskaðasti einstaklingurinn í verkinu. Tímasetningar og líkamsbeiting hans bráðfyndin. Helstu mótleikarar hans stóðu sig einnig með prýði, Marinó Fannar Garðarsson sem Finnur, Guðrún Katrín Oddsdóttir sem móðirin, Brynjar Örn Sigurdórsson sem pabbi og unglingssystirin Dagný sem Ása Ninna Karlsdóttir lék. Fleiri áttu góða takta en upptalningu verður að linna einhversstaðar.

Mikið veltur á að samskipti og afstaða barna og fullorðinna séu skýr í verkinu. Hluti af gamninu er að sjá valdið sem smáfólkið hefur yfir börnum sínum. Á stundum þótti mér sem þessu hefði ekki verið gefinn nægilegur gaumur. Ólafur Jens hefði að ósekju mátt aga eldra liðið sitt örlítið, þó vissulega sé gaman að sjá virðulegar húsmæður og mektarmenn hegða sér óvitalega. Á hinn bóginn voru yngri leikararnir jafnvel of prúðir á köflum, jafnvel svo að það sem þau höfðu að segja kafnaði í fyrirganginum í óþekktarormunum af eldri kynslóðinni.

En þetta vegur satt að segja ekki stórt. Sýningin skilar þessu snjalla verki til nýrrar kynslóðar og er sannarlega kjörin fyrir börn og foreldra til að sækja heim, skoða og ræða svo saman, í bróðerni og á jafnréttisgrundvelli. Óvitar eru stórt leikrit og verður varla lítið úr þessu.