laugardagur, apríl 29, 2023

Svartþröstur

Eftir David Harrower. Íslensk þýðing og leikstjórn: Vignir Rafn Valþórsson. Leikmynd og búningar: Júlíanna Lára Steingrímsdóttir. Tónlist: Örn Eldjárn. Lýsing: Pálmi Jónsson. Hljóðmynd: Salka Valsdóttir. Leikgervi: Guðbjörg Ívarsdóttir. Aðstoð við sviðshreyfingar: Kata Ingva. Leikarar: Ásthildur Úa Sigurðardóttir, Valur Freyr Einarsson og Hekla Lind Ólafsdóttir. Raddir: Gunnbjörn Gunnarsson og Maríanna Clara Lúthersdóttir. Frumsýnt á Litla sviði Borgarleikhússins föstudaginn 21. apríl 2023.

Það er bara þú

Enska lýsingarorðið „harrowing“ lýsir hverju því sem kemur okkur í alvarlegt og viðvarandi tilfinningalegt uppnám. Ekki er líklegt að ættarnafn höfundar Svartþrastar vísi í arfgengan eiginleika til að ná fram þessháttar áhrifum, en ef svo væri þá er allavega óhætt að segja að skotinn David Harrower sé enginn ættleri.
Svartþröstur tekur um níutíu mínútur í sýningu í uppfærslu Vignis Rafns Valþórssonar. Ekkert hlé. Og engin miskunn. Þetta er nærgöngula nútímaleikhúsið að gera sitt besta til að hrista upp í áhorfendum með agaðri formbyggingu, raunsæislegu málsniði og sálfræðilega sannfærandi persónusköpun. Þetta er satt best að segja alveg ískyggilega vel skrifað verk, og engin leið að skynja að púðrið hafi neitt blotnað við flutning yfir á íslensku sem leikstjórinn á líka heiður af.
Una birtist óvænt á vinnustað Peters. Þau hafa ekki sést í fimmtán ár. Eða síðan Peter, sem þá hét Ray, skildi Unu eftir á hótelherbergi þar sem þau ætluðu að bíða eftir ferjunni sem bæri þau til meginlands Evrópu þar sem þau hugðust byrja nýtt líf. Ray fertugur, Una tólf ára. Ray hefur setið af sér dóm, og að því er virðist komið lífi sínu á réttan kjöl undir nýju nafni. Una kannski síður, sem vonlegt er, en er þó nægilega sterk til að leita Peter uppi. 
Í hönd fer nístandi uppgjör. Barátta um hvernig beri að skilja og túlka það sem gerðist. Og, það sem er kannski áhrifaríkast og erfiðast að kyngja og melta: Sameiginleg þrá eftir því að fortíðin hafi verið eins og þau trúðu þá að hún væri. Að það sé þrátt fyrir allt möguleiki á að hún sé ekki sú martröð sem hún var. Hvernig það gengur verður ekki upplýst hér.
Það er hvergi skjól að finna í þessu ferðalagi inn í fortíðina og tilfinningarnar, undir miskunnarlausum fúrorljósunum á nöturlegri kaffistofunni sem Júlíanna Lára Steingrímsdóttir hefur hannað og Pálmi Jónsson lýsir frábærlega, auk þess sem Örn Eldjárn og Salka Valsdóttir hækka spennustigið með útsmoginni tónlist og hljóðmynd. Þetta gæti svo auðveldlega farið illa úrskeiðis með einhverjum leikstjórnarlegum undanslætti eða vanhugsaðri leiktúlkun. Natúralískur textinn, þar sem fólk á ystu nöf berst við að orða tilfinningar sínar, leita svara, afhjúpa sig, fela ætlun sína, stika vígvöllinn sér í hag, kallar á fullkomið tæknilegt vald sem aldrei má bera á. Þau Ásthildur Úa Sigurðardóttir og Valur Freyr Einarsson reynast þessum vanda vaxin og ríflega það.
Illa hamið uppnámið sem grípur Ray/Peter þegar hann áttar sig á hver er mætt á kaffistofuna líður seint úr minni eins og Valur Freyr túlkar það. Því auðvitað hefur leikarinn fullkomna stjórn á óstjórninni í rödd, líkamstjáningu og tali persónunnar. Sveiflurnar milli þess að stýra og móta gang samtalsins og upprifjunarinnar og að tapa stjórninni eru frábærlega mótaðar hjá þessum fremsta textameðferðarmanni sinnar kynslóðar í íslensku leikhúsi.
Við höfum eðli máls minna séð til Ásthildar Úu, sem lauk sínu leikaranámi fyrir þremur árum. En hún er hreint stórkostleg í þessu ofboðslega hlutverki. Mætir til leiks full af fölsku adrenalínöryggi, finnst hún hafa örlög þessa manns loksins í hendi sér. En fljótlega byrjar að hrikta í grunninum sem hún stendur á. Upprifjun hennar á örlaganóttinni í ferjubænum, þar sem við sjáum hana hverfa í rödd, látbragði og líkamstjáningu aftur til bernskunnar er svo sannarlega „harrowing“, og líður seint úr minni. Annað dæmi um tækni og innlifun að vinna saman eins og best gerist.
Hekla Lind Ólafsdóttir á stutta innkomu undir lok verks  og skilar sínu óaðfinnanlega.
Það er óhætt að segja að leikhúsunnendur þurfi ekki að kvarta yfir skorti á kröftugum, ágengum og frábærlega framsettum raunsæislegum kammerverkum á þessu leikári. Svartþröstur er sigur fyrir Vigni Rafn, Val Frey, Ásthildi Úu, Heklu Lind, Leikfélag Reykjavíkur og leikhúsið sem aðferð til að skyggnast inn í myrkrið í leit að ljósi.