laugardagur, mars 04, 2000

Þrek og tár

Leikfélag Menntaskólans að Laugarvatni
Menntaskólanum að Laugarvatni 4. mars 2000

Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Leikstjóri: Ingunn Jensdóttir
Hljómsveitarstjóri: Malcolm Holloway

Þrek er gull

AÐ sumu leyti finnst mér Þrek og tár vera besta leikrit Ólafs Hauks til þessa. Það er eins og allir vöðvarnir sem hann hnyklar svo ótæpilega í sumum fyrri verkum sínum séu komnir á sinn stað, undir yfirborðið, og gegni þar því hlutverki að hreyfa beinagrindina án þess að vera sjálfir til sýnis. Þetta heppnast að mínu viti aðdáanlega vel. Eitruð snjallyrðin sem einkenna stíl Ólafs eru enn til staðar, en tempraðri en oft áður. Verkið dansar þokkafullann línudans milli hláturs og harma, drama og gamans. Tónlistin breiðir síðan rósrauða rómantíska fortíðarþrárslæðu yfir allt saman.

Þrek og Tár hefur bæði nokkuð augljósa kosti og galla sem viðfangsefni menntaskólaleikfélags. Persónufjöldinn og tiltölulega jafnt vægi hlutverka er tvímælalaust kostur, en sú staðreynd að verkið fjallar um þrjár kynslóðir gerir menntskælingum vissulega erfitt fyrir, enda lítið um eilífðarstúdenta nútildags. Þá geta þær afdráttarlausu kröfur sem verkið gerir til tónlistarhæfileika þorra leikenda verið þungar í skauti.

Sýning Leikfélags Menntaskólans að Laugarvatni nær þegar best lætur að skila áhrifamætti verksins að fullu. Þetta á sérstaklega við um blíðari og rómantískari hluta verksins. Bæði gamansömu og dramatísku atriðin liðu nokkuð fyrir þann stíl sem leikstjóri sýningarinnar hefur valið að leggja til grundvallar. Ýkjukenndur leikur verður aðeins til þess að draga máttinn úr gríninu sem stendur fyrir sínu þótt leikið sé af einlægni og alvöru. Framan af var þetta óþarflega áberandi en eftir því sem undiraldan verður þyngri varð sýningin betri og að lokum býsna áhrifamikil.

Leikarahópurinn er stór en nokkra langar mig að nefna sérstaklega. Jóhann Árnason er í hlutverki hins breyska en lífsvitra kaupmanns og nær ágætlega að virka sannfærandi sem ættfaðir jafnaldra sinna. Jóhanna F. Sæmundsdóttir var einkar áhrifamikil í hlutverki jesúbarnsins Mínu og Brynja Hjörleifsdóttir gerði vel sem ógæfusama eiginkonan sem finnur hamingjuna að lokum. Þá var Jón Ólafur Ármannsson afbragðsgóður sem Davíð, drengurinn á leið út í lífið. Fjölmargir aðrir taka þátt í sýningunni og eiga góða spretti. Þó verð ég að nefna að á köflum var illmögulegt að skilja hvað sumir leikenda voru að segja. Ég hef lesið Þrek og Tár, séð það þrisvar sinnum á sviði og tvisvar í sjónvarpi og þekki textann því allvel en samt skildi ég stundum alls ekki hvað verið var að segja. Hér hefði leikstjóri átt að hafa fastara taumhald.

Tónlistin er einn helsti lykill verksins og tókst á köflum ágætlega að skila henni. Hljómsveitin var vel spilandi og hafði hinn rétta tímabilstón. Af söngvurum mæddi mest á Kristínu Th. Þórarinsdóttur sem hefur hlýja og fallega söngrödd sem hæfir vel þessari tónlist. Kristín stóð sig með prýði, sem og aðrir söngmenn.

Þrek og tár er falleg og áhrifamikil mannlífsmynd, með ljósi og skuggum í bland. Sýning Laugvetninga náði á köflum að vera þannig samstíga verkinu að heildarútkoman verður að teljast fjöður í hatt félagsins og ánægjuleg leikhúsminning fyrir áhorfendur.