laugardagur, mars 11, 2000

Daumur á Jónsmessunótt

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði
Menntaskólanum á Ísafirði mars 2000
Eftir William Shaksespeare
Þýðing: Helgi Hálfdanarson
Leikstjóri: Sigrún Sól Ólafsdóttir

Þrír heimar

DRAUMUR á Jónsmessunótt er efalaust eitt skemmtilegasta leikrit sem skrifað hefur verið. Fyrir nú utan hvað hann gleður áhorfendur einatt í sinni þá er Draumurinn líklega það verka Shakespeares sem er opnast fyrir ólíkum túlkunum og uppátækjum leikstjóra. Sum verkanna taka tilraunum svona eins og hverju öðru hundsbiti, gömul og ráðsett og vita betur. Draumurinn virðist hins vegar mæta hverjum leikhóp og leikstjóra með galopin barnsaugu, til í hvað sem er, síungur og þess vegna sívinsæll.

Sýning leikfélags Menntaskólans á Ísafirði er afbragðsgóð. Fjörug, fyndin og stútfull af snjöllum og góðum hugmyndum. Það var til að mynda gaman að sjá sérstaka leikskrá fyrir Pýramus og Þispu, leikritið í leikritinu. Snjallasta hugdettan var þó að stækka eitt álfahlutverkið, gera eina álfadísina að fylgdarmær hrekkjalómsins Bokka og skipta textanum hans á milli þeirra. Þetta bauð upp á skemmtilegt samspil sem Brynjar Már Brynjólfsson og Herdís Anna Jónsdóttir nýttu vel.

Önnur breyting, sem er reyndar að verða viðtekin venja ef marka má nýlegar uppfærslur á Draumnum, er að gera Egeif, föður Hermíu, að móður hennar. Þetta gengur fullkomlega upp og Ester Ösp Guðjónsdóttir var ekki í vandræðum með að gera "Eigeifínu" að flagði sem kom næsta lítið við þó mannsefnið sem hún hafði valið dóttur sinni væri henni ekki að skapi.
Eitt uppátæki leikstjórans var mér þó lítt að skapi. Á nokkrum stöðum kýs hún að láta persónurnar bresta í söng og flytja mál sitt syngjandi þekkt lög sem falla misvel að texta Shakespeares. Þetta á ágætlega við í sýningu handverksmannanna en miður annarsstaðar, og alveg ljóst að leikurunum er fullkomlega treystandi til að gera textann lifandi og áhrifaríkan á "venjulegan" hátt. Notkun tónlistar var að öðru leyti ágæt og Suðausturevrópsku stefin áttu sérlega vel við í þessum skógi.

Það er reyndar áberandi hvað ljóðrænn og upphafinn textinn leikur eðlilega í munni menntskælinganna. Fremst meðal jafningja að þessu leyti er trúlega Sigríður Gísladóttir sem gerði Títaníu að einni eftirminnilegustu persónu sýningarinnar, sem er hreint ekki sjálfsagt að hún sé. Atriðið þegar Títanía vaknar og lítur Spóla vefara með asnahausinn augum í fyrsta sinn hef ég ekki séð fallegar gert, reyndar ekki jafn fyndið heldur, því Jón Kristinn Ragnarsson var alveg óborganlega hræddur við þessar furðuverur, sem vonlegt er. Leikflokkur handverksmannanna var vel skipaður og Greipur Gíslason var skemmtilega uppburðarlítill leikstjóri hans, enda fór sem fór með sýninguna.

Draumurinn hefur þann kost umfram mörg verka Shakespeares að þar eru nokkuð mörg bitastæð hlutverk. Mest mæðir þó á þeim sem kljást við elskendurna fjóra sem tapa áttum í skóginum þessa nótt, en ná þeim svo aftur sem aldrei fyrr. Hér tókst vel til með þau öll. Hermía Þórunnar Önnu Kristjánsdóttur var greinilega vön að fá sitt fram, Judith Amalía Jóhannsdóttir var skemmtilega ástsjúk Helena, Friðrik Hagalín Smárason var flagaralegur Lýsander og Haukur Sigurbjörn Magnússon hæfilega slepjulegur sem tengdamömmudraumurinn Demetríus.

Fleiri leikara mætti telja upp og hrósa, því sýningin er verk hópsins alls, og leikstjóra hans sem hefur náð að skapa heilsteypta sýningu og láta þrjá heima aðals, verkalýðs og álfa, birtast í "hljómríkum misklið" á Sal MÍ, og hverfa síðan aftur inn í draumalandið.