þriðjudagur, febrúar 29, 2000

Síldin kemur og síldin fer

Leiklistarhópur Umf. Eflingar
Félagsheimilið Breiðamýri, Reykjadal febrúar 2000

Eftir Iðunni og Kristínu Steinsdætur
Leiklistarhópur Umf. Eflingar
Leikstjóri: Arnór Benónýsson
Tónlistarstjórn: Jaan Alavere

Uppgrip

SÍLDIN þeirra Steinsdætra er eitt af þeim leikritum sem íslenskt áhugaleikhús hefur fyrir löngu tekið að hjarta sínu. Frá því Húsvíkingar frumfluttu það hefur það verið sýnt um landið þvert og endilangt, lengst af aðallega við sjávarsíðuna, en upp á síðkastið hefur þessi undrafiskur verið að krafla sig æ lengra inn í land. Það var heldur ekki annað að sjá en kvikindið dafni vel í Reykjadalnum. Þessar vinsældir eru ekkert ástæðulausar. Verkið er bæði fyndið og fjörugt og ánægjulega laust við ádeilubrodda, sem sumum finnst að hljóti að eiga að leynast í öllum gamanleikjum. Síldin er skýr og skemmtileg mynd af veröld sem var, og gagnast bæði þeim sem muna þessa tíma og okkur sem yngri erum og njótum þess einfaldlega að eyða kvöldstund í félagsskap lifandi fólks. Breiðamýri er að upplagi fremur hefðbundið félagsheimili en Arnór og leikdeildin hafa brugðið á það snjalla ráð að umbylta leikrýminu, byggja pall eftir endilöngu salargólfinu og leika á honum og við báða enda hans. Þetta nýtist feikivel, sparar umstang við sviðsskiptingar og gefur verkinu aukna vídd.

Sýningin er bráðskemmtileg. Hún einkennist öðru fremur af krafti og fjöri og þingeyska sjálfsöryggið geislar af hverju andliti. Persónurnar eru skýrt teiknaðar og þær þeirra sem bjóða upp á tilþrif voru ekki sviknar af leikurum sínum. Svo einhverjir sé nefndir þá naut Jón Friðrik Benónýsson sín í hlutverki Ófeigs bónda og Aðalbjörg Pálsdóttir ekki síður sem eiturtungan Málfríður símamær. Saltstrákurinn fordrukkni, Lilli, var í góðum höndum hjá Karli Ingólfssyni, Þorgerður Sigurgeirsdóttir var sannfærandi sem hinn upprennandi kvenskörungur Jökla og framganga Ásgríms Guðnasonar sem hásetinn og slagsmálahundurinn Konni líður seint úr minni. Reyndar var landlegudansleikurinn og eftirmál hans í heild óborganleg skemmtun, þar nýttist langi pallurinn vel og tilþrifin á dansgólfinu voru heilt leikrit út af fyrir sig.

Tónlistarflutningur er undir stjórn Jaan Alavere og gerir sitt fyrir skemmtanagildi sýningarinnar. Hópsöngvar voru kraftmiklir og í sólónúmerum náðu leikararnir að bæta vídd við persónur sínar. Jaan fór að auki létt með lítið hlutverk sitt sem rússneskur síldarkaupmaður, og virtist mér á máli hans að hann hefði þungar áhyggjur af drykkjuskapnum á söltunarfólkinu, sem vonlegt er.

Efling hefur undanfarin ár notið fulltingis nemenda Framhaldsskólans á Laugum við sýningar sínar. Þetta hefur gefið færi á að setja upp mannmargar stórsýningar og er það stefna félagsins að gefa öllum færi á að vera með sem þess óska. Þetta er eftirtektarverð stefna og þegar afraksturinn er jafn heilsteypt og kröftug og Síldin er þá er stefnan líka rétt frá sjónarhóli áhorfandans, sem vill fá sína skemmtun hvað sem öllum stefnum líður. Þeir nemendur sem fá auk sinnar venjulegu bókmenntunar kennslustund í því að vinna að sameiginlegu markmiði með fólki á öllum aldri með ólíkan bakgrunn eru áreiðanlega ekki sviknir af námsdvöl sinni í Reykjadalnum. Og enginn áhorfandi verður svikinn af stórskemmtilegri uppfærslu Arnórs og Eflingar.