þriðjudagur, febrúar 08, 2000

Thriller

Nemendamót Verslunarskóla Íslands
Loftkastalinn febrúar 2000

Söngleikur byggður á tónlist Michael Jackson
Handrit og leikstjórn: Gunnar Helgason
Þýðing söngtexta: Hallgrímur Helgason
Dansar: Guðfinna Björnsdóttir og Íris María Stefánsdóttir
Leikmynd og lýsing: Sigurður Kaiser
Tónlistarstjórn: Jón Ólafsson

Í fílíng

Að taka nokkur frægustu lög hins lifandi listlíkis Michael Jackson og tengja saman með leiknum atriðum hljómar í mínum eyrum eins og uppskrift að stórslysi. Þær voru því ekki stórar væntingarnar meðan ég beið eftir að sýning hæfist í Loftastalanum sl. fimmtudagskvöld. Góðu heilli þá kunna verslingar og þeirra samstarfsmenn þá list að fara frjálslega með uppskriftir og ekkert slys í augsýn.

"Thriller" gerist á rammíslenskum skemmtistað þar sem rammíslensk ungmenni og ennþá íslenskari fyllibyttur rembast við að skemmta sér sem mest þau mega. Það gengur að sjálfsögðu misvel, enda fer aldrei neinum sögum af fólki sem siglir áreynslulaust gegnum þroskaárin. Það tíðkast á þessum stað eins og víðar að stytta sér leið að lífsgleðinni með þartilgerðum efnum, og sú iðja réttilega fordæmd.

"Thriller" er eiginlega alveg unaðslega klassísk saga, minnir til skiptis á "Sem yður þóknast" og "Pilt og stúlku", allt fært til nútímans og framreitt í söngleikjaformi, sem líka er auðvitað öldungis klassísk leið til að segja góðar sögur.
Gunnar Helgason á heiður að handritsgerð og hefur satt að segja tekist ótrúlega vel að skrifa áhugaverða sögu í stað þess að stikla milli laga með einföldum brögðum. Lögin falla flest mjúklega inn í atburðarásina, þjóna henni og persónusköpuninni vel. Sum samtöl og einstök tilsvör voru bráðfyndin og framvindan skýr.

Ég er ekki vel að mér í tónlist viðundursins Jackson en þó grunar mig að þýðingar Hallgríms Helgasonar séu annað og meira en það, og iðulega hafi hann sveigt af leið til að styðja betur verk bróður síns, og er það vel. Þýðingarnar eru liprar og snjallar og oftast tókst að greina orðaskil, sem er alls ekki sjálfsagt mál í söngleikjaflutningi.
Það er mikils krafist af leikhópnum og hann sendur undir því. Söngur og dans var hreinlega óaðfinnanlegur. Ég hef ekki hundsvit á dansi en ef eitthvað var athugavert við frammistöðu dansara í þessari sýningu má ég hundur heita. Leikmynd var haganleg og bauð upp á fjölbreyttar lausnir.

Söngur og dans gerir afdráttarlausar tæknikröfur til flytjenda og auðvelt að sjá hvort eitthvað tekst eða ekki. Öðru máli gegnir með leik. Þar er ekki við jafn mikið að styðjast, hvorki fyrir leikendur né gagnrýnendur. Öllum tókst þó að móta skýrar týpur og flytja mál sitt af krafti. Mest gustar af Þorvaldi D. Kristjánssyni í hlutverki töffarans Benna sem verður næstum því töffaraskapnum að bráð, Rakel Sif Sigurðardóttur sem gerir lífsnautnagelluna og skiptinemann Billy Jean bráðskemmtilega og þeim bræðrum af Króknum Badda og Bödda sem urðu aldeilis óborganlegir í meðförum Sigurðar H. Hjaltasonar og Daníels T. Daníelssonar.

"Thriller" er kraftmikil fjörug og skrautleg sýning, borin uppi af leikhóp sem gerir afdráttarlausar kröfur til sjálfs sín. Ef krakkarnir læra þessa einbeitingu, metnað og eftirfylgni í skólanum þá er greinilega verið að gera eitthvað rétt í Ofanleitinu.