miðvikudagur, febrúar 02, 2000

Paradísareyjan

Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð
Tjarnarbíói febrúar 2000

Byggt á skáldsögunni „Lord of the Flies“ eftir William Golding
Þýðing leikgerðar: Salka Guðmundsdóttir
Leikstjóri: Árni Pétur Guðjónsson
Hreyfihönnuður: Ólöf Ingólfsdóttir
Tónlistarstjóri: Árni Heiðar Karlsson
Lýsing: Egill Ingibergsson

Paradís á jörð?

Það var ánægjulegt að fá tilefni til að rifja upp gömul kynni við Flugnahöfðingja Nóbelsskáldsins William Golding, þó svo ekki ynnist tími til að lesa hana aftur fyrir frumsýningu Leikfélags MH. En sagan er eitt af þessum meistarastykkjum þar sem einföld grunnhugmynd verður að líkingu fyrir mannlífið allt og til verður tilraunastofa í manneðlisfræði.

Hópur skóladrengja lifir af þegar flugvél hrapar á hitabeltiseyju. Enginn fullorðinn er meðal eftirlifenda, og sagan lýsir þriggja mánaða ferðalagi drengjanna frá því að vera vel upp aldir vestrænir fyrirmyndarstrákar yfir í blóðþyrst og samviskulaus villidýr.

Tvennt gerir það að verkum að saga þessi er ekki endilega heppilegt viðfangsefni fyrir íslenskt menntaskólaleikfélag. Í fyrsta lagi eru unglingar kannski allra síst til þess fallnir að leika börn sem eru nokkrum árum yngri en þeir. Óhugsandi hefði verið fyrir hópinn að „leika“, eða herma eftir börnum, slíkt hefði gert sýninguna að hreinum skrípaleik. Þar af leiðandi eru það unglingar sem áhorfandinn sér, og þarf þá annaðhvort að minna sig stöðugt á að þetta eiga að vera börn, eða hreinlega að sætta sig við að hér eru unglingar á ferð. Í annan stað er vitaskuld engin leið að sniðganga stúlkurnar, sem alla jafna bera uppi félagsskap á borð við skólaleikfélög. Það er hins vegar íþyngjandi fyrir ímyndunaraflið að samfélag menntaskólastúlkna og -drengja á eyðieyju skuli þróast á jafn „kynlausan“ hátt og hér er sýnt. Þegar áhorfandinn hefur sætt sig við þessi atriði er síðan ekkert því til fyrirstöðu að njóta sýningarinnar.

Paradísareyjan hefur sterkt svipmót spunasýninga, þó svo skrifað handrit hafi verið lagt til grundvallar. Höfuðáherslan er á hópinn, viðbrögð hans í heild og það er einmitt á þeim stundum þegar þessu hópafli er beitt sterkast sem sýningin er áhrifamest. Hins vegar stendur þessi nálgun nokkuð í vegi fyrir því að áhorfandinn fái tilfinningu fyrir persónulegri afstöðu einstaklinganna til þess sem gerist. Fyrir vikið verður sagan kannski einfaldari en efni standa til, erfiðara að skilja en jafnframt meira að upplifa. Árni Pétur Guðjónsson hefur greinilega lag á að segja sögu á þennan hátt, og þeim vinnubrögðum sem lýst er í leikskrá, að virkja hópinn allan í sköpun sýningarinnar frá grunni, er auðvitað til fyrirmyndar fyrir skólaleikfélag.
Leikhópurinn sem heild er sem sagt aðalleikari sýningarinnar og á sem slíkur hrós skilið. Leikskráin undirstrikar þetta, þar er enga persónuskrá að finna, einungis mynd af leikhópnum og nöfn sem undirrituðum reyndist illmögulegt að tengja andlitum á óyggjandi hátt. Þrátt fyrir þetta vil ég gjarnan koma því til skila að þeir þrír leikarar sem mest mæddi á, leiðtogarnir tveir og „Svínka“, stóðu sig afar vel, sköpuðu skýrar persónur, en fengu þó þrátt fyrir allt úr of litlu að moða til að gera fulla persónulega grein fyrir ferð sinni gegnum verkið.

Umgjörð er af einföldustu gerð, autt svið, en lýsingu óspart beitt til að kalla fram stemningu og leiða athyglina þangað sem hún á heima. Þetta heppnast vel. Búningar eru stílhreinir og fallegir og staðsetja söguna vandlega í rúmi og tíma.

Eitt af því sem sýning menntskælinganna skildi eftir sig í hugskoti þessa gagnrýnanda var undrun yfir því af hverju sagan virkar svo sláandi á lesandann/áhorfandann. Eftir á að hyggja virðist allt sem gerist óhjákvæmilegt. Frá því að börnin standa á ströndinni og spurningin „hvað eigum við að gera“ heyrist er ljóst að þetta getur ekki endað nema illa. Hvernig ættu börn, án menntunar, lífsreynslu og heimsskilnings, að hafa svör við spurningu sem mannkynið er búið að reyna að svara frá upphafi vega með misjöfnum og oft skelfilega öfugsnúnum árangri?