mánudagur, nóvember 15, 2021

Njála á hundavaði

Höfundur: Þorvarður Þórarinsson. Leikgerð: Hjörleifur Hjartarson. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir. Tónlist: Hundur í óskilum. Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing og myndbönd: Ingi Bekk. Hljóð: Þorbjörn Steingrímsson. Leikgervi: Þórunn María Jónsdóttir og Elín S. Gísladóttir. Leikarar: Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson. Frumsýning á Nýja sviði Borgarleikhússins föstudaginn 5. nóvember 2021.

Af taðskegglingum og eggjanarfíflum


Lá ekki alltaf í loftinu að úr því að Hundur í óskilum var hættur að vera „bara“ hljómsveit og orðinn einhverskonar kabarett-tvíeyki (kabadúett?) og hirðtrúðar Borgarleikhússins að þeir myndu fyrr eða síðar taka Brennu-Njáls sögu til meðferðar? Og er það ekki til marks um stöðu sögunnar í íslenskri menningu að það líði ekki nema fimm ár milli sviðsetninga á henni? Sem að auki reynast glettilega líkar í afstöðu sinni til efnisins. Í umsögn minni um uppfærslu Þorleifs Arnarssonar minnist ég reyndar á að eitt atriðið þar sé eins og beint upp úr handbók Hundsins. Þeirrar sýningar er líka getið snemma í Njálu á hundavaði, talað um „Sirkus-Njálu“. Sú lýsing gæti auðvitað alveg eins átt við núna.
En veldur hver á heldur. Þeir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson hafa átt tilkall til þessa efnis síðan þeir fönguðu fyrst athygli hins breiða almennings með túlkun sinni á Gunnarshólma Jónasar. Strax þar mátti sjá þá illskilgreinanlegu eiginleika sem gera list þeirra svona ómótstæðilega. Það er engin leið að rekja í sundur eða greina prósentuhlutföllin milli háðs og harms, alvöru og gríns, fimi og flippaðs kæruleysis. Hvar endar ástin og virðingin og vægðarlaus kaldhæðnin tekur við? Allsstaðar og hvergi. Þetta er hristur og hrærður kokteill og uppskriftina veit enginn nema þeir kumpánar, og nú líka Ágústa Skúladóttir leikstjóri og samverkakona þeirra eftir að þau gerðu Nýja svið Borgarleikhússins að goðorði sínu.
Ef við reynum samt að efnagreina hanastélið þá verða fyrir okkur þrjú „eyru“: tóneyra, brageyra og gríneyra. 
Tónlistin er vitaskuld rótin og kjarninn í list Hundsins. Það er stundum erfitt að greina færnina, öryggið og „músíkalítetið“ í gegnum pönkaða nálgunina í spilamennskunni og þrautirnar sem þeir félagar leggja fyrir sjálfa sig með hljóðfæravali og tilraunamennsku á því sviði. Þeir hafa aldrei gengið eins langt í þessum efnum og hér, þar sem stór hluti hljóðfæranna hefur runnið saman við leikmuni og -mynd Þórunnar Maríu Jónsdóttur. Þórunn María á líka heiðurinn af einkar snjöllum og glæsilegum búningum, og gervum ásamt Elínu S. Gísladóttur. Þessi samruni, og samspil við upptekinn undirleik veldur því að stundum er teflt á tæpasta vað með að allt gangi smurt. Fyrst og fremst myndi þetta aldrei virka ef ekki kæmu til frábærir „undirliggjandi“ hæfileikar og næmni þeirra félaganna. 
Lagavalið er síðan óborganlega snjallt. Bæði þegar það liggur beint við (Fire, Hot Stuff, Hey Joe) og þegar þeir koma áhorfendum algerlega í opna skjöldu (Paradise by the Dashboard Light, Bei Männern welche Liebe fühlen úr Töfraflautunni). Í síðari hlutanum, þegar bæði sagan og sýningin gliðna smá, skjóta þeir inn „hitturum“ úr sinni gömlu efnisskrá, stundum á pínu hæpnum forsendum, en allir standa þeir fyrir sínu sem skemmtiefni og því ástæðulaust að kvarta yfir því.
Allt er þetta vel þekkt og kunnuglegt. Sú hlið mála sem kannski munar mestu um og hefur vaxið að mikilvægi undanfarið er einstakur tónn og vaxandi vald Hjörleifs á bundnu máli. Þar eru einfaldlega fáir sem standa honum á sporði við að kjarna hugsun og halda jafnvægi milli einfaldleika og óvæntra leiða í rími, stuðlum og „pönsi“, sem alltaf gleður. Til dæmis í eftirmálanum við Gunnarshólma, sem er „… út um allt á kortum / svo enginn veit hvaða hólma Jónas ort’um“.
Um gríntóninn höfum við þegar sagt flest sem segja þarf. Þó verður að nefna það hve vel þeir fara með hið vandmeðfarna vopn að setja persónur og atburði sögunnar í nútímasamhengi. Það er ódýr brella sem auðveldlega getur orðið hvimleið en Eiríkur og Hjörleifur hitta nákvæmlega á rétta tóninn til að gera þetta nánast alltaf skemmtilegt. Að kalla Njál „kynsegin stjörnulögfræðing“, lýsa skyndibrúðkaupi Þorgerðar og Þráins í brúðkaupsveislu móður hennar í anda Séð og heyrt og segja Kristnitökukaflann vera „eins og sérblað frá Samtökum í sjávarútvegi inni í miðopnu Moggans“. Allt laukrétt, og fyndið eins og það kemur út úr þeim félögunum. 
Textinn er almennt skemmtilega skrifaður, með sterkum spunaeinkennum sem þýðir að það slær áhorfandann ekkert út af laginu þó stundum hljómi eins og menn reki í vörðurnar, sem gerðist öðru hverju í þessa þrjá tíma sem sýningin tekur. Er hún þó hreint ekkert of löng, heldur flýgur stundin hratt í þessum frábæra félagskap frá snjöllum upphafssöngnum til lokasöngsins í brúðkaupi Kára og Hildigunnar, sem er tvímælalaust einn hápunktanna.
Persónusköpun og leikur er ekki í öndvegi í þessu frásagnarleikhúsi, en týpusmíðin tekst stundum mjög vel, sérstaklega í hinni „passive-agressive“ Bergþóru Eiríks og slepjulegum og dálítið varhugaverðum bónda hennar hjá Hjörleifi. Sviðsstjórinn Chris Astridge á nokkrar innkomur og er fumleysið uppmálað. Ljósa- og myndbrellumeistarinn Ingi Beck er líka í nánu sambandi við leikarana og fer vel á með þeim.
Njála á hundavaði er mikil og góð skemmtiveisla hjá þeim Ágústu, Eiríki og Hjörleifi. Þessi mikla saga liggur vel við grínhöggi frá sjónarhóli nútímans, en hún er líka spegill fyrir okkur til að skopast að eigin glóruleysi. Það er erfitt að ímynda sér annað en Hundinum muni dveljast þarna nokkur misseri við að kæta mann og annan.

Sýningin okkar

Eftir Jóhann Kristófer Stefánsson og Tatjönu Dís Aldísar Razoumeenko. Dramatúrg: Karl Ágúst Þorbergsson. Leikmynd: Hallveig Kristín Eiríksdóttir Búningar: Erna Guðrún Fritzdóttir. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Leikmunir: Halldór Sturluson. Tónlist/hljóðmynd: Guðlaugur Hörðdal Einarsson og Kári Guðmundsson. Leikarar: Jóhann Kristófer Stefánsson, Tatjana Dís Aldísar Razoumeenko og Hákon Jóhannesson. Leikhópurinn Konserta frumsýndi á Loftinu í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 22. október 2021.

Í afdrepi

Sundurgerð og visst kæruleysi eru meðal grunntónanna í Sýningunni okkar, ríflega klukkustundarlöngu nýju leikverki sem leikhópurinn Konserta sýnir á Loftinu, smárými uppi í rjáfri Þjóðleikhússins. Loftið hefur verið helgað barna- og brúðuleiksýningum en það fer líka vel á að gera það að tilraunastofu fyrir ungt leikhúslistafólk og aðra sem vilja reyna sig. Flest af því sem þar var boðað í kynningarbæklingi leikhússins eru „verk í vinnslu“, en sá fyrirvari er ekki gerður við Sýninguna okkar, þó vel mætti hugsa sér frekari úrvinnslu meginefnis hennar.
Engan þarf að undra að leikhópur sem vísar með nafni sínu í velþekkt lyf gegn ofvirkni og athyglisbresti hlaupi svolítið út undan sér, haldi ekki alltaf þræði. Þannig er meginefni Sýningarinnar okkar brotið upp með stuttum atriðum, „sketsum“, sem sumir eiga að vera nokkurskonar treilerar, eða kynningarbrot úr sýningum Þjóðleikhússins; þakklætisvottur fyrir aðstöðuna og hjálpina sem Konserta hefur notið í húsinu. 
Það fer nú svona og svona: kynningarstikla um Framúrskarandi vinkonu tengist verki Elenu Ferrante ekki hætishót, en skoðar þess í stað vináttuna sem fyrirbæri á gervidramatískan hátt, og ekki sérlega skemmtilegt sem slíkt. Og eitthvað hefur slegið út í fyrir hópnum þegar þau ákváðu að stiklugera söngleik um sjálfan Bubba Morthens. Bráðfyndið atriði, fyrir utan kómíkina í að hafa það yfirleitt með.
Annars er svolítið eins og Konserta-fólk sé á báðum áttum með hvort það sé verðugt verkefni að koma fólki til að hlæja. Jafnvel þar sem efniviðurinn er í grunninn skoplegur, og efnistökin háðsk er eins og þau vilji ekki stíga grínskrefið til fulls. Það er eins og þeim finnist þau ekki vera, eða vilja vera, „þannig“ listamenn. Þau eigi alvarlegra erindi.
Þannig verða sketsarnir aldrei alveg nógu snjallir, og þeir búa forms síns vegna heldur ekki yfir möguleikum til að segja eitthvað djúpt eða sérlega satt um fólkið í þeim eða gefa áhorfendum bitastætt efni til að máta við sig og sitt líf. Þetta er vandratað einstigi sem Konserta hrasar stundum á.
Þau Jóhann Kristófer Stefánsson og Tatjana Dís Aldísar Razoumeenko komast öllu nær „alvöru“ áhrifum í meginefni sýningarinnar: sögunni af unga parinu Heiðbrá og Þresti, sem fengu opinberun með hjálp afurða kakóplöntunnar í Mið-Ameríku, sérstaklega Heiðbrá sem glímir við afleiðingar óskilgreindra áfalla. Og eins og sannir nútímaíslendingar vilja þau deila þessari opinberun með öllum, sérstaklega öllum sem eru eitthvað í samfélaginu. Því að sjálfsögðu er þetta unga og andlega þenkjandi hugsjónafólk líka markaðsfræðingar og ætla sér stóra hluti í viðskiptalífinu. Hvort mannræktarhugsjónin er skel utan um kapítalíska eðlishvötina eða öfugt verður aldrei ljóst. En vöruvæðing sjálfsleitarinnar er vissulega á lokastigi í samfélagi okkar og verðugt viðfangsefni.
Hvort fyrirlestur Heiðbrár í Eldborg verður að veruleika, eða hafi jafnvel farið fram og lukkast vonum framar, fáum við ekki að vita. Ekki heldur hvort „rítrítið“, eða afdrepið sem þau eru að skipuleggja til að kynna öllum sem einhverju máli ná í velgengniskreðsunum fyrir dásemdum kakósins, stendur undir væntingum. Ég saknaði að sjá framvindu í broslegu bjástri þeirra skötuhjúa. Einhverjar alvöru hindranir, einhverja safaríka bresti í sambandinu. Og kannski aðeins einarðari afstöðu til efnisins. 
Fínlegu blæbrigðin í valdataflinu voru ágætlega teiknuð, sérstaklega eftir að stirðleikinn fór af Jóhanni og Tatönju eftir fyrsta atriðið. Drepfyndnar upptalningar á merkilega fólkinu sem þurfti að bjóða og blíðka urðu því sniðugri sem þær urðu endalausari. Alltaf á mörkunum að breytast í hina dýrðlegu Bílastæðaverði Fóstbræðragengisins. Og fallegt og snjallt þegar þær þulur runnu saman við þakkarlista leikaranna sjálfra til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg við gerð sýningarinnar. Við getum nefnt Karl Ágúst Þorbergsson dramatúrg, leikmyndahönnuðinn Hallveigu Kristínu Eiríksdóttur, búninga Ernu Guðrúnar Fritzdóttur og lýsingu Jóhanns Friðrik Ágústssonar. Og Hákon Jóhannesson sem bregður sér í nokkur smáhlutverk. Enginn er titlaður leikstjóri í kynningarefni sýningarinnar. Í sýningunni sjálfri eru nokkur sögð hafa lagt til efni fyrir utan þau Jóhann og Tatönju, þar á meðal Ragnar Kjartansson, danshöfundurinn Katrín Gunnarsdóttir og Margrét Bjarnadóttir. En á endilega að leggja trúnað á það? Þetta er þegar öllu er á botninn hvolft fólk sem heldur að 9 líf séu sýnd í Þjóðleikhúsinu.
Það eru ónýttir möguleikar í meginefni Sýningarinnar okkar. Ég hefði viljað meira drama, meiri átök, skýrari afstöðu. Minna af hálfvolgri kaldhæðni, þó sniðug sé. Þó það hefði kostað hefðbundnari vinnubrögð og ófrumlegra form þá held ég að það hefði verið þess virði.

Ástardrykkurinn

Kátlegar kvonbænir

Segja má að nýhafinn menningarvetur muni gefa okkur ágætt yfirlit um ólíkar leiðir til að koma sígildum óperum til þeirra sem unna því listformi. Og jafnvel að stækka þann þrönga hóp, og þá ekki síður yngja aðeins í honum. Í byrjun nóvember hefjast sýningar á ný á hinni ástsælu La Traviata eftir Verdi, fyrst í Hörpu en síðan Hofi á Akureyri. Í febrúar býður Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska óperan upp á tónleikauppfærslu á Valkyrju Wagners. Og nú standa yfir sýningar á Ástardrykknum eftir Donizetti í Þjóðleikhúskjallaranum á vegum Sviðslistahópsins Óðs. Þar er allt skorið inn að beini. Fjórir söngvarar, einn píanóleikari og verkið hraustlega stytt. Og – tölum meira um að síðar – sungið á íslensku.
Þetta er vægast sagt frábærlega heppnað hjá Óði. Það má ekki á milli sjá hvert þeirra nýtur sín best, Ragnar Pétur Jóhannsson (hinn útsmogni skottulæknir Dulcamara), Þórhallur Auður Helgason (hinn ástsjúki en illa blanki Nemorino), Jón Svavar Jósefsson (montprikið Belcore) eða Sólveig Sigurðardóttir (hin eftirsótta Adina). Nú eða Sigurður Helgi Oddsson, sem Ragnar Pétur sækir út í sal í upphafi sýningar til að redda málunum við hljóðfærið. Það er afslöppuð en orkurík leikgleði í öllum framgangi flytjendanna, og þó verkið sé vissulega ákaflega karlmiðað og möguleikar til að „fara á kostum“ í skoptöktum séu fyrst og fremst hjá strákunum þá bætir Sólveig það upp með aldeilis glæsilegum flugeldatónum í sínum glansnúmerum. Ekki það að söngurinn sé almennt neitt minna en stórfínn.
Vinna leikstjórans, Tómasar Helga Baldurssonar, er traust þar sem það á við en laus þegar slík tök eru betri. Og þau eru vissulega betri þegar jafn flinkir stuðboltar standa á sviðinu og hér er raunin. Sigurður Helgi Oddsson sá um að búa verkið til flutnings í þessu formi. Og síðast en ekki síst: Sólveig Sigurðardóttir og Guðmundur Sigurðsson þýða textann svona líka lipurlega.
Sem er algert lykilatriði. Hin sérkennilega tregða við að flytja óperur á máli sem áhorfendur skilja (og flytjendur hugsa á og dreymir í) held ég að sé eitt af því sem heldur „óinnvígðum“ áhorfendum og þeim sem yngri eru í burtu. Verkin virka ekki sem leikhúsverk með framandgervingu ítölskunnar (nú eða rússnesku eða ungversku) milli sviðs og salar. Hér er salurinn með á nótunum, og skemmtir sér eftir því.
Og þarf Ástardrykkurinn nokkuð meira en þetta? Þetta er nú ekki merkileg tónlist og dramatískt innihaldið síst bitastæðara en rauðu ástarsögurnar. Það vekur eiginlega furðu að hornsteinn óperulistarinnar í landinu, Íslenska óperan, hafi fyrir nokkrum árum tjaldað öllu til við að segja þessa tvívíðu sögu. Hló einhver þá? Nema þá til að gefa í skyn að viðkomandi væri með á nótunum í ítölskunni. 
Í uppfærslu Sviðslistahópsins Óðs  fær Donizetti allt sem hann verðskuldar og áhorfendur allt sem þeir þurfa. Fallegan söng, fölskvalausa leikgleði og aðgang að gríninu. Halda þessu áfram og hver veit hvað gerist með framtíð óperunnar á Íslandi. Takk fyrir mig.