fimmtudagur, febrúar 25, 2016

Píla Pína

Eftir Heiðdísi Norðfjörð, byggt á ævintýri Kristjáns frá Djúpalæk. Tónlist: Heiðdís Norðfjörð og Ragnhildur Gísladóttir. Leikgerð: Sara Marti Guðmundsdóttir og Sigrún Huld Skúladóttir. Leikstjórn: Sara Marti Guðmundsdóttir. Tónlistarstjóri: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Kór: Eldri barnakór Akureyrarkirkju, en kórstjóri er Sigrún Magna Þórsteinsdóttir. Leikmynd og brúðuhönnun: Rebekka A. Ingimundardóttir. Búningar og gervi: Margrét Einarsdóttir. Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarsson. Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson og Þóroddur Ingvarsson. Myndband: Ingi Bekk. Danshöfundur: Katrín Mist Haraldsdóttir. Teiknarar: Dan Denton og Ana Stefaniak. Grímur: Sigríður Rósa Bjarnadóttir og Sif Guðmundsdóttir. Leikarar: Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir, Þórunn Lárusdóttir, Benedikt Karl Gröndal, Saga Jónsdóttir, Kjartan Darri Kristjánsson, Eik Haraldsdóttir, Eyþór Daði Eyþórsson, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir, Freysteinn Sverrisson og Jón Páll Eyjólfsson. Frumsýnt 7. febrúar, en rýnt í sýningu 21. febrúar 2016.

Ljúf stund í músaheimum

Vinir mínir sem eru svona tíu-fimmtán árum yngri en ég eiga eitt sameiginlegt: Þeir verða væmnir og voteygir þegar músasaga Heiðdísar Norðfjörð og Kristjáns frá Djúpalæk berst í tal. Eru þetta þó upp til hópa hin mestu hörkutól dags daglega. En það er eitthvað í þessari hugþekku sögu sem hefur náð til þeirra áður en karlmennskan setti sitt mark á hjörtun. Hjartað er svo eitt leiðarstef verksins. Hvernig við eigum að hlusta á það, næra það og sækja til þess bæði visku og styrk.

Líklega gegnir tónlistin þarna lykilhlutverki. Lög Heiðdísar og Ragnhildar Gísladóttur eru framúrskarandi og hin minnisstæðustu þeirra í fremstu röð í ágætu safni íslenskra barnalagaperlna. Flutningur laganna í sýningu Menningarfélags Akureyrar er lýtalaus, bæði söngur og spilamennska. Þessi tónlist kallar ekki beinlínis á íburðarmiklar útsetningar eins og þær sem Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson hefur búið þeim hér, en þær drekkja heldur ekki hinum lagræna þokka.

Almennt má segja að mikið sé í þessa sýningu lagt. Leikhópurinn allstór, leikmynd og lýsing falleg og smekkleg notkun myndbandatækni stækkar hana umtalsvert. Búningar og gervi sérlega falleg í hinum hefðbundna, rómantíska stíl sem best þykir henta barnaleikritum með dýrum í aðalhlutverki, ekki bara Egner. Ég set spurningarmerki við brúðunotkunina, hún hefði að mínu mati þurft að vera mun inngrónari hluti af aðferð sýningarinnar til að réttlæta sig, en það væri líka lítil eftirsjá í þeim þó vel væri á þeim haldið í sjálfu sér.

Það hefur líka verið ráðist í að auka efni í söguna sjálfa og má segja að það hafi verið nauðsynlegt. Þrátt fyrir allan sinn þokka er sagan óneitanlega í rýrara lagi til að réttlæta heila leiksýningu þar sem öllu er tjaldað til. Ferð músarstelpunnar Pílu pínu úr öryggi Lyngbrekkunnar í leit að móðurfjölskyldunni og heim aftur full-áreynslu- og hnökralaus, lausnin of auðfengin. Þó eru þarna forvitnilegir þættir innan um. Harðneskjan í þröngum heimi bæði haga- og húsamúsa og tortryggni í garð ókunnugra svo sannarlega viðeigandi viðfangsefni, en bráðna full-auðveldlega í ylnum frá heitu hjarta söguhetjunnar. Og hinn sí-nálægi dauði sem talað er um af óvenjulegu hispursleysi, og sungið um í frábæru lagi, þó viðtakendur séu ungir að árum.

Viðbæturnar hjálpa líka upp á að auka frásagnarspennuna. Einkum samband Pílu við hinn vængbrotna Kidda krumma sem minnir á hina gömlu sögu um Andrókles og ljónið og er annað lóð á vogarskál hins tímabæra boðskapar um sátt og samlyndi við hina ókunnugu og öðruvísi. Sagan á síður efni til að útlista á sannfærandi hátt hitt meginerindi sitt; að vilji, þor og trú sé það sem þarf til að gera alla vegi færa, jafnvel fyrir litla mús. Fallegur boðskapur samt.

Þá létti kostulegt par úr mannheimum heldur betur stemminguna í þéttsetnum salnum. Þó það atriði væri eins og aðskotahlutur úr öðru verki gerði það í raun ekkert til – heimar manna og músa eru jú af ólíku sauðahúsi.

Þar sýndi Benedikt Karl Gröndal ágætis tilþrif í svolítið groddalegum grínleik, prýðilega studdur af Þórunni Lárusdóttur sem einnig var fallega mædd Gína, flóttamúsin, móðir Pílu. Og vel fór hún með þekktasta lag verksins, saknaðarsönginn undurfallega. Benedikt var líka faðir Pílu, sem ekki er feitur hlutverksbiti, en meira gaman var af hrafnaparinu illyrmislega sem hann myndaði með Jóni Páli Eyjólfssyni í stuttu en kröftugu atriði.

Það er langt síðan ég hef séð Sögu Jónsdóttur á sviði og hún sýndi okkur tvær mýs. Hugnæm sem amman af ætt húsamúsa og kostuleg sem hin taugastrekkta kennslumús Vera fróða.

Kjartan Darri Kristjánsson fékk einnig tvö hlutverk. Kiddi krummi pínu ógnvekjandi en meira aumkunarverður og svo rændi Kjartan senunni sem vel útfærð og bráðfyndin margfætla.

Það kemur síðan í hlut Thelmu Hrannar Sigurdórsdóttur að bera herlegheitin uppi í titilhlutverkinu og gerir það með sóma og sjarma. Falleg nærvera og söngrödd sjá til þess að áhorfendur eru með Pílu alla leið.

Hópur yngri leikara fer snoturlega og snurðulaust með smærri hlutverk systkina og frændsystkina hennar.

Þetta er sem sagt allt frekar ljúft. Örlítils textaóöryggis gætti reyndar í upphafi, sem vera má að stafi af því að langt líður milli sýninga. Verkið sjálft er líka á mörkunum að halda dramatískum dampi eins og áður sagði. Einnig má velta því fyrir sér hvort Sara Martí Guðmundsdóttir, leikstjóri sýningarinnar, hefði átt að leyfa aðeins meiri ærsl, taka örlítið meiri áhættu í sviðsetningunni. En notaleg er sýningin, mjúk og blíð.


miðvikudagur, febrúar 24, 2016

Illska

Leikgerð Óskabarna ógæfunnar á samnefndri skáldsögu Eiríks Arnar Norðdahl. Leikstjórn: Vignir Rafn Valþórsson. Sviðshreyfingar: Brogan Davison. Leikmynd: Brynja Björnsdóttir. Búningar:Guðmundur Jörundsson. Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson. Myndband: Frosti Jón Runólfsson. Hljóðmynd: Garðar Borgþórsson. Leikarar: Hannes Óli Ágústsson, Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn ásamt Ungliðahreyfingu ógæfunnar sem í voru Andrea Vilhjálmsdóttir, Embla Huld Þorleifsdóttir, Fannar Arnarsson, Hildur Ýr Jónsdóttir, Jónas Alfred Birkisson, Telma Huld Jóhannesdóttir og Vilhelm Þór Neto. Frumsýning á Litla sviði Borgarleikhússins fimmtudaginn 18. febrúar 2016.

Á valdi sögunnar

Þegar leikgera á skáldsögu af stærðargráðu Illsku eftir Eirík Örn Norðdahl eru ýmsar leiðir færar. Hin „klassíska“ nálgun, sem lengi var einráð í hinum stóra og umdeilda heimi íslenskra skáldsagnasviðsetninga, hefði flæmst um víðan völl í humátt á eftir höfundinum, sýnt okkur fjöldamorð á gyðingum í Litháen, gagnkvæmar nauðganir á sófum á Selfossi og húsbruna, einelti og pólitík á Ísafirði. Ótal persónur hefðu fengið mynd og mál. Og þegar upp hefði verið staðið hefði bókin verið betri.
Hún er reyndar líka betri en sýningin sem Óskabörn ógæfunnar hafa unnið upp úr henni. Það skiptir samt minna máli en hitt, hvað þetta tiltekna listaverk sem er til sýnis á Litla sviði Borgarleikhússins er að reyna að gera og hvernig það tekst upp á eigin spýtur.

Mögulega hafa efnahagslegar ástæður tekið sumar grunnákvarðanirnar fyrir þau, en ég hallast að því að Vigni Rafni Valþórssyni og hans fólki hafi tekist vel bærilega að sækja í söguna það sem best hentar sem hráefni fyrir leikhús: hvernig náin samskipti fólks afhjúpa persónuleika þess og hin flóknu og gagnvirku tengsl tilfinninga og hvata einstaklinganna við samfélagið og það sem Eiríkur Örn kallar svo hnyttilega „skriðþunga mannkynssögunnar“.

Hafi ætlunin með sýningunni verið að segja eitthvað mikilvægt um uppgang fasisma og kynþáttahyggju og tengsl þessara þjóðfélagsstrauma við hjólför mannkynssögunnar sem við komumst ekki úr þá hefur það ekki alveg tekist. Sumt í innihaldi hennar og margt í myndmáli bendir til þessa. En það er einfaldlega of einfalt – of ódýrt – að veifa hakakrossum og íslenska fánanum í bland og blasta „Ísland er land þitt“. Málið er flóknara en svo. Til að rannsaka það er bókin betri.

Leikhúsið er á hinn bóginn miklu betra í að fást við annarskonar flækjur. Þar sem það þarf ekki að einfalda neitt. Með því að einbeita sér nokkuð skilmerkilega að hinu þríhliða ástar- og valdatafli í hjarta sögunnar ná Óskabörnin vopnum sínum. Helstu fjöldamorðum, nauðgunartilraunum og æskuáföllum eru gerð skil í frásögnum en atburðarás sýningarinnar hverfist um persónurnar þrjár: Agnesi, Ómar og Arnór.

Þar veltur allt á framlagi leikaranna. Þau Hannes Óli Ágústson, Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson eru öll eins og fimir fiskar í vatni í krefjandi stíl sýningarinnar þar sem skiptast á sálfræðilega raunsæ atriði, háðsk uppbrot á þeim og bein ávörp til áhorfenda, í og úr „karakter“. Engan stuðning að sækja í sáraeinfalda, óræða en snjalla og þénuga leikmynd Brynju Björnsdóttur. Þau gerðu sér síðan mikinn mat úr þeim fáu en vel völdu leikmunum sem þau fengu í hendurnar. Skyndibitamat og kynlífsleikfangi, sem gegnir skemmtilega „gamaldags“ hlutverki í að skapa hvörfin í verkinu.

Öll vinna leikararnir skýrar og sannfærandi persónur úr efniviðnum. Lentu reyndar á fyrstu mínútunum í smá textaþæfingi, en komust fljótlega upp úr honum.

Sólveg gefur hinni mergjuðu Agnesi mjög sannfærandi mynd og ber léttilega þá byrði að vera dramatísk þungamiðja sýningarinnar. Sólveigu þarf leikhúsið að nýta meira og betur. Hannes Óli fyndinn og sannur sem hinn ráðvillti meðaljón Ómar og Sveinn Ólafur bæði ógnvekjandi og aumkunarverður í hlutverki nasistans Arnórs, en fyndinn, og líka pínu ógnvekjandi, sem einhverskonar sögumaður og málpípa höfundar, með hinn einkennandi kúluhatt í anda Eiríks Arnar. Öllu verri hugmynd þótti mér sú að kynna Arnór til sögunnar í SS-síðfrakka. Það, eins og reyndar allar vísanir sýningarinnar í myndmál nasismans, er of beinskeytt, of afgreiðandi. En svo fer Arnór úr frakkanum og við þurfum að sitja undir ógeðslegum hugmyndum hans, fást við þær og fordæma.

Samt ekki alveg án forgjafar, sem sýnir á skýran hátt eðlismun bókar og sviðsverks. Ég var búinn að steingleyma kækjum Arnórs sem sagt er frá í bókinni. Á sviði verða þeir á hinn bóginn að algeru aðalatriði, lita alla framgöngu persónunnar og, þó ljótt sé að segja það, ómerkja að vissu leyti það sem Arnór hefur fram að færa. Það er auðvitað ómaksins vert að skoða þau fordómakenndu viðbrögð sín, en ég á bágt með að ímynda mér að það hafi verið ætlunin. Sveinn Ólafur fór létt með að leika með og í gegnum geiflurnar, en fór kannski einu skrefi of nálægt skopfærslu með þeim. Aftur spurning um hvaða áhrifum átti að ná.

Hópur aukaleikara var fumlaus í sínum fánaburði og þó hinn óopinberi þjóðsöngur Magnúsar Þórs Sigmundssonar og Margrétar Jónsdóttur hafi farið aðeins yfir klisjuþolmörk mín þá var tónlistarvalið að öðru leyti ísmeygilega snjallt og átti stóran þátt í andblæ sýningarinnar, „íslenskaði“ hið alþjóðlega þjóðrembuvandamál á snjallan hátt.

Almennt má segja að sýningin gefi forvitnilega innsýn í muninn á útkomunni þegar rithöfundi er mikið niðri fyrir við skrifborð sitt og þegar leikhúsfólk vill fyrir alla muni ná kröftugum áhrifum. Hvað leikhúsið gerir vel og hvar bækur eru betri. Á eigin spýtur er leiksýningin Illska fyndin, beitt og ágætlega vel heppnuð skoðun á tilfinningaglímu þriggja ráðvilltra ungra Íslendinga og tilraunum þeirra til að sjá til sólar framhjá þoturákum mannkynssögunnar.

mánudagur, febrúar 08, 2016

Old Bessastaðir

Old Bessastaðir eftir Sölku Guðmundsdóttur. Leikstjóri: Marta Nordal. 
Leikmyndahönnun: Finnur Arnar Arnarsson. Búningahönnun: Helga Stefánsdóttir. 
Tónlist: Högni Egilsson. Hljóðsmiður: Marteinn Hjartarson. Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson. Leikendur: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir.Sokkabandið sýnir í Tjarnarbíói. Frumsýning 4. febrúar 2016.

Gildafólkið 

Hvaða ódæði skyldu þær hafa ætlað að fremja, konurnar þrjár sem Salka Guðmundsdóttir leiðir saman í Tjarnarbíói þessa dagana? Því þær ætla augljóslega að gera eitthvað. Eitthvað þarf jú að gera, þetta getur ekki gengið svona lengur. Þó orð séu til alls fyrst þá duga þau ekki til þegar á hólminn er komið. Er það annars?

Strax og við hittum þær er ljóst að þær hafa eitthvað í hyggju. Það líður ekki á löngu áður en sú fyrsta íklæðist lambhúshettunni, einkennisklæðnaði aðgerðarsinnans og ígildi skriftastólsins í sýningunni. Víglínan virðist nokkuð skýr og gildin skilgreind. Eða hvað?

Gildin og skilgreining þeirra eru kjarni verksins Old Bessastaðir. Safaríkasta og frjóasta hugmynd Sölku Guðmundsdóttur. Hvernig þau um- og afmyndast í meðförum þríeykisins. Þróast frá því að vera almenn og óhlutbundin hugtök sem við flest myndum glöð kvitta undir yfir í að verða vopn í valdabaráttu kvennanna þriggja og á endanum merkingarleysan ein. Voru það kannski frá upphafi. Sennilega áttum við að sjá strax að sú sem ræður gildunum stýrir gangi mála. Sá sem reynir að halda í þau gildi sem meirihlutinn hefur kastað fyrir róða mun tapa, sjái hann ekki að sér í tíma.

Það blasir við öllum með opin skilningarvit og aðgang að fjöl- og samfélagsmiðlum að eitt af mikilvægustu málum samtímans er sú óvænta og uggvænlega staða að viðhorf sem í hálfa öld hafa verið meira og minna bannfærð og bannhelguð þokast sífellt fjær því að vera feimnismál og nær „miðjunni“ í samfélagsumræðunni á hinum velmegandi Vesturlöndum, og líka hér hjá okkur. Þetta er hinn görótti kokteill öfgafullrar þjóðernis- og einangrunarstefnu samfara vantrú á opinni umræðu og hefðum lýðræðisins, blanda sem einfaldast er að kalla fasisma.

Listamönnum úr öllum greinum rennur auðvitað blóðið til skyldunnar að rannsaka þessa stöðu mála, velta fyrir sér birtingarmyndum og grafast fyrir um orsakir og hugsanlegar afleiðingar þess að uppvakningurinn er kominn á kreik. Að mörgu leyti er leikhúsið vel til þess fallið að leggja eitthvað gagnlegt til málanna, enda í eðli sínu einskonar rannsóknarstöð mannlífsins. En á sama tíma er reyndar ríkjandi þar innandyra viss vantrú á einmitt þeim meðulum leikhússins sem ætla mætti að væru helsti styrkur þess og sérstaða. Sálfræðilegt raunsæi og hefðbundin fléttusmíð þar sem andstæð sjónarmið, hagsmunir og lífssýn eru látin mætast og takast á er ekki í tísku og sennilega hefur ekki einu sinni hvarflað að Sölku að nálgast efnið á þann hátt.

Ansi margt er órætt og látið ósagt um þessar þrjár konur. Þær virðast koma úr ólíkum heimum og eiga lítið sameiginlegt nema hugsjónina. Við fáum örlítið að skyggnast inn í fortíð þeirra í stuttum eintölum. Þar komumst við að því að sú sem Elma Lísa Gunnarsdóttir túlkar er öryrki sem hefur ekki náð að fóta sig í lífinu og lífsgæðakapphlaupinu. Hin hörkulega og kalda kona sem Arndís Hrönn Egilsdóttir sýnir okkur virðist vera einhvers konar meðferðaraðili, mögulega prestur en kannski félagsfræðingur og efst þeirra þriggja í valdapíramída þjóðfélagsins hefur karríerkona Maríu Hebu Þorkelsdóttur setið en nýverið hrapað þaðan eftir óskilgreint hneyksli. Allar vinna þær vel úr efnivið sínum undir smekkvísri stjórn Mörtu Nordal og í skýrri umgjörð ljósa-, leikmyndar-, búninga- og hljóðmyndarhönnunar, þó ekki sé hægt að segja að þær sýni áhorfendum sem þekkja til þeirra eitthvað nýtt og óvænt.

Sú framvinda sem leikkonurnar hafa úr að moða felst einkum í valdatogstreitu og bandalagamyndun innan hópsins, og þar verða til margar fyndnar og sannar aðstæður. Að mínu mati setur óræðnin, sem aðferð höfundarins gengur út á sýningunni, full strangar skorður. Afhjúpun ofbeldisblandinnar heimóttarinnar og rótanna í hræðslu og græðgi verður full auðveld, niðurstaðan gefin. Við erum alveg til í að hlæja að og líta niður á þessar konur. En til að skilja þær þarf að fara nær raunveruleikanum en þessi kröftuga og reiða sýning og stíll hennar leyfir.