sunnudagur, desember 01, 2002

Emil í Kattholti

Leikfélag Hornafjarðar
sunnudaginn 1. desember 2002.
Höfundur: Astrid Lindgren, leikstjóri: Guðjón Sigvaldason, lýsing: Þorsteinn Sigurbergson, tónlistarstjóri: Þórir Ólafsson,

Strákskratti!

NÁKVÆMLEGA hvað er við Emil Antonsson í Kattholti að athuga? Fremur hann prakkarastrik? Nei, í leikritinu reynir hann að veiða rottu, draga tönn úr vinnukonunni og hjálpa heimóttarlegum vini sínum Alfreð frá ótímabærri trúlofun. Hann hífir systur sína upp í flaggstöng til að sýna henni sveitina og hún er svo sannarlega ekki mótfallinn því, og þetta með súpuskálina er augljóslega slys. Vissulega valda uppátæki hans vandræðum en aldrei gerir hann neitt sem er ætlað að hrekkja, hvað þá meiða. Kannski er hann bara ofvirkur og ætti að vera á Rítalíni (allavega er alveg ljóst að listþerapían í smíðakofanum er ekki að virka).

Leikfélag Hornafjarðar hefur verið í húsnæðisvandræðum um árabil og hefur að þessu sinni fengið inni í húsnæði sem áður hýsti bókasafn bæjarins. Það ber þess vissulega merki að vera ekki leikhús og að leikfélagið hefur lítið gert til að breyta þeirri staðreynd. Möguleikararnir eru samt fyrir hendi ef félagið fær þarna varanlegan bústað.

Emil í Kattholti er ekki sérlega hentugt verk til að setja upp við þessar aðstæður. Það samanstendur af mörgum smásögum, eiginlega einþáttungum, sem hver útheimtir nokkrar senur. Hvernig á að leysa þetta í svona rými? Þess sjást merki í sýningunni að Guðjón Sigvaldason hafi ætlað að brjóta leikgerðina upp og laga hana að aðstæðum, en það hefur ekki fyllilega tekist. Leikmyndin samanstendur af máluðum bakteppum á ramma, og er myndunum hreinlega flett af rammanum þegar þörf er á. Auk þess er smíðakofinn mikið smíðaverk sem komið er fyrir á sviðinu þegar við á. Allt tekur þetta tíma og þó reynt sé að brúa hann með söng eða atriðum sem leikin eru til hliðar, vaknar sú spurning hvort ekki hefði verið hægt að finna einfaldari lausn sem stöðvaði flæðið í sýningunni ekki jafn mikið.

Leikhópurinn stendur sig ágætlega, en þó er yfir sýningunni einhver kæruleysisblær, það er eins og ekki sé verið að leggja sig fram af fullum krafti. Söngur var til að mynda fremur máttlaus og í tvígang gleymdu söngvarar texta og fengu í framhaldinu hláturskast.