laugardagur, mars 25, 2000

Sköllótta söngkonan

Leikfélag Verkmenntaskólans á Akureyri
Verkmenntaskólanum á Akureyri mars 2000

Höfundur: Eugene Ionesco
Þýðandi: Bjarni Benediktsson
Leikstjóri: María Pálsdóttir

Leikendur: Guðlaugur Tumi Baldursson, Guðrún María Jóhannsdóttir, Sigurjón Friðriksson, Gísli Freyr Eggertsson, Hrafnhildur Lilja Georgsdóttir og Jóhanna Mjöll Þórmarsdóttir

Sá hlær best...

LEIKHÚS fáránleikans er samheiti sem leikhúsfræðingurinn Martin Esslin setti á nokkra skáldjöfra leikhússins upp úr miðri síðustu öld. Þar voru þeir taldir helstir Samuel Beckett, Harold Pinter, Jean Genet – og Ionesco. Síðan hefur verið bent á að höfundar þessir eigi líklega færra sameiginlegt en það sem skilur þá að. Eitt er víst, Ionesco er hreint ekki í sama þyngdarflokki og þessir kollegar hans.

Með verkum sínum virðist Ionescu vera að tjá hve tjáskipti eru ómöguleg, tungumálið innantómar tuggur og leikhúsið gelt og úr sér gengið. Þessu kemur hann á framfæri með því að skrifa leikrit þar sem persónurnar tala í tuggum, tjáskipti eru engin og aðstæður allar sem klisjulegastar. Þetta er allt saman frekar ódýrt hjá kallinum, enda ekki von á öðru þar sem hann hefur svo augljóslega rangt fyrir sér um raunveruleikann. Fólk tjáir sig, skilur hvort annað (mestanpart) og leikhúsið virkar. Það sanna til dæmis sýningar á verkum hans sjálfs. Því með því að skrifa innantómar setningar og litlausar persónur gaf Ionesco leikhúsfólki einmitt það sem því þykir svo gaman að: frelsi. Frelsi til að ákveða afstöðu persónanna í stað þess að leita hennar í textanum, frelsi til að ljá merkingarleysunni hvaða merkingu sem vera kann. Útkoman er því gjarnan full af lífi, merkingu – og gott leikhús.

Sköllótta söngkonan er frumraun Ionescos í leikritagerð og öfgakennt dæmi um fyrrnenfnd höfundareinkenni hans. Smith-hjónin bíða eftir Martin-hjónunum og skipast á tómum þvættingi. Martinhjónin mæta seint og um síðir og eru engu skárri. Slökkviliðsmaður mætir á staðinn, fólk skiptist á sögum án innihalds og að lokum lætur tungumálið undan og innihaldsleysið eitt stendur eftir.

Sýning leikfélags VMA er prýðileg skemmtun. Umgjörðin er hefðbundin stofuleikmynd, sem gerði undarlegheitin í textanum enn skýrari en ef farin hefði verið einhver stílfærsluleið. Þetta var greinilega heimili millistéttarborgara eins og þeir eru í venjulegum stofuleikritum. Tónlist Tom Waits er kannski ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann við svona lýsingu en var engu að síður vel við hæfi.

Lítt vanur leikhópurinn nær ágætum tökum á svolítið yfirspenntum leikstíl sem María Pálsdóttir hefur lagt til grundvallar. Það fer vel á því að skapa á þennan hátt undirliggjandi togstreitur bak við kjaftæðið. Sérstaklega gekk fjórmenningunum sem léku hjónin vel að fóta sig og sköpuðu oft bráðskemmtileg andartök með sterkum undirtóni. Vinnustúlkan var skýrt mótuð týpa en Slökkviliðsmanninum hafði greinilega gengið erfiðlega að ná tökum á textanum, sérstaklega langri og heimskulegri sögu án innihalds. Þessum vandkvæðum hafði verið snúið upp í eitt skemmtilegasta atriði sýningarinnar, frábærum samleik leikara og hvíslara, sem eitt og sér staðfesti það að tjáskipti eru hrein ekki vankvæðum bundin í veruleikanum, hvað svo sem gildir í þeim fáránleika þar sem leikskáldið setur sínar eigin reglur.

sunnudagur, mars 19, 2000

Ekkert klám

Leikfélag Keflavíkur
Frumleikhúsið í Keflavík sunnudagurinn 19. mars 2000

Höfundar: Júlíus Guðmundsson, Ómar Ólafsson, Hulda Ólafsdóttir, Jón Marino Sigurðsson, Aron B. Magnússon og Arnar Fells Gunnarsson
Leikstjóri: Júlíus Guðmundsson

Við súluna

REVÍUGERÐ stendur með blóma í Keflavík og hefur gert það um skeið. Reyndar ekki bara revíugerð, heldur hefur stór hluti af verkefnum Leikfélags Keflavíkur verið heimabrennt undanfarin ár og margir lagt þar hönd á penna eða lyklaborð. Svo hefur náttúrulega leikhúsið myndarlega sem félagið er búið að koma sér upp verið vítamínsprauta fyrir alla starfsemi. Sannarlega eftirbreytinverður stuðningur bæjaryfirvalda við menninguna heimavið.
Ekkert klám er reyndar ekki revía í viðteknum íslenskum skilningi, en gömlu revíurnar okkar eru reyndar ekki revíur í viðteknum erlendum skilningi. Þetta stefnir nú í að verða full flókið svo best að segja bara að Ekkert klám samanstendur af stuttum ótengdum atriðum, ýmist sungnum eða leiknum, enginn söguþráður eða kynnir eða nokkur hlutur tengir atriðin saman. Semsagt: revía eða kabarett, hvaða máli skiptir það svo sem, þetta snýst um hvort fyrirbærið er fyndið eða ekki.
Og Ekkert klám er á köflum bráðfyndið. Það gefur auga leið að sýning sem samanstendur af yfir tuttugu atriðum verður seint öll hrein snilld, en bestu atriðin ná satt að segja býsna langt. Það háir þeim þó sumum að góðar hugmyndir eru ekki leiddar nægilega skýrt til lykta. Þannig hefði bráðgóð hugdetta um súludansmey með ofnæmi fyrir járni þurft betra niðurlag og það sama mætti segja um skopparana dásamlegu sem vildu verða löggur. Stundum vantaði “pönsið”, svo ég grípi til tækniorða skopgerðarfólks. Þau atriði sem náðu sér virkilega á flug gerðu það í krafti vandaðrar vinnu, hvort sem það var brjálæðisleg hugmynd eins og með megrunarduftið og ryksuguna eða söng vaxtaræktardrengjanna, frábær persónusköpun eins og hjá hljómsveitinni vonlausu og kvenréttindatónskáldinu harðskeytta eða pottþéttar tímasetningar eins og á bílaverkstæðinu. Þá verð ég að taka ofan fyrir höfundi lokalagsins fyrir þá frábæru hugdettu.
Það sem kom mér einna mest á óvart var hve lítið staðbundin sýningin var. Ég fékk sjaldnast á tilfinninguna að verið væri að taka innanbæjarhneykslin til meðferðar, heldur voru pillurnar flestar ætlaðar þjóðinni allri. Þetta var vitaskuld gleðilegt fyrir mig utanbæjarmanninn.
Leikur var merkilega jafn og góður, miðað við form og innihald. Það lá við að maður saknaði þess að einhver tæki sig til og “færi á kostum” eins og sagt er. Þó slíkt geti verið truflandi í alvörugefnum hefðbundnum leikritum þá er vissulega svigrúm til tilþrifa hér. Allt um það þá er Ekkert klám í Frumleikhúsinu ekkert fúsk heldur prýðileg skemmtun fyrir alla sem leið eiga um Suðurnesin, og aðra reyndar líka.

föstudagur, mars 17, 2000

Rocky Horror Show

Leiklistarklúbbur NFFA
Fjölbrautaskólinn á Akranesi mars 2000

Höfundur: Richard O'Brien
Þýðandi: Veturliði Guðnason
Leikstjóri: Ari Matthíasson
Tónlistarstjóri Flosi Einarsson
Danshöfundur: Indíana Unnarsdóttir

Tíminn flýtur

ÞAÐ þarf svo sem ekki mikla rannskóknarblaðamennsku eða heilu sjónvarpsþáttaseríurnar til að sjá að viðhorf til þess hvað er ásættanleg bersögli um kynlífsbrölt mannskepnunnar hafa breyst á síðustu árum. Það nægir að bera saman í huganum frumuppfærslu Leikfélags MH á Rocky Horror á Íslandi fyrir tæpum áratug og sýningu Skagamanna sem frumsýnd var síðastliðið föstudagskvöld. Sýning Hamrahlíðamanna verður nánast tepruleg í samanburðinum, og þótti nógu krassandi þá. Það er hinsvegar fánýtt að deila um hvort breytingin sé til batnaðar eða dæmi um að heimur versnandi fari. Allavega nenni ég því ekki.

Verk á borð við Rocky Horror, sem eru óður til annara verka og stílbragða, í þessu tilfelli B-hryllingsmynda og gamaldags rokktónlistar, bjóða tæpast upp á nýstárlegar túlkunarleiðir eða frjálsræði í útliti. Stór hluti áhorfenda hefur mótaða skoðun á því hvernig persónurnar eiga að vera og sýningin stendur og fellur með því að brjóta ekki gróflega gegn þessum væntingum. Þetta próf stenst sýning Leiklistarklúbbi NFFA með glans. Allt útlit er vel útfært og söngur og tónlistarflutningur er með miklum ágætum. Greinilega nóg af söngvurum á Skaganum um þessar mundir. Þá kemst hópurinn sem heild vel frá leiknum. Sakleysingjarnir lánlausu, Brad og Janet, voru skemmtilegir í meðförum Vals Birgissonar og Aldísar Birnu Róbertsdóttur. Sindri Birgisson er Frank N'Further, geimveran og gleðipinninn á korselettinu, og kemst vel frá því. Sindri var ákaflega mikil "drottning", en á hinn bóginn stafaði kannski ekki alltaf nægilegri ógn af honum. Það er reyndar ekki síður á ábyrgð mótleikaranna að skapa þá stemningu, það eru þeir sem "leika kónginn" með afstöðu sinni til hans. Þarna hefði Ari Matthíasson mátt leggja skýrari línu. Hjálparkokkurinn Riff-Raff var kraftmikill og skuggalegur hjá Sveinbirni Hafsteinssyni og systir hans var hæfilega dræsuleg hjá Sylvíu Rún Ómarsdóttur. Þá var Columbia Andreu Katrínar Guðmundsdóttur prýðileg. Vöðvabúntið sérhannaða, Rocky var skorinn og smurður eins og vera ber hjá Símoni Óttari Vésteinssyni. Þá var Tryggvi Dór Gíslason þeir frændur báðir, Dr. Scott og Eddie, mótorhjólavillingurinn sem notaður er sem hráefni í vöðvatröllið. Atriðið þegar Frank gengur endanlega frá Eddie var fengið að láni úr uppfærslu Loftkastalans og því gefst undirrituðum nú síðbúið tækifæri til að lýsa opinberlega yfir ánægju með þá snjöllu og hrollvekjandi lausn.

Það er síðan enn til marks um breytta tíma að sögumaðurinn sem fyrrum var virðulegur eldri vísindamaður, fullur vandlætingar á framferði persónanna, var hér eins og ein af áhangendum Franks, minnti einna helst á Úlfhildi Dagsdóttur hryllingsfræðing og fór vel á því. Elsa J. Kiesel var sannfærandi sem þessi nýstárlegi sögumaður, en lenti stundum í framsagnarvanda sem leikstjórinn hefði ekki átt að leyfa henni að komast upp með.

Rocky Horror er skemmtilegt og síungt verk og höfðar að því er virðist enn til ungs fólks, þó það sé farið að grána í vöngum. Sýning Skagamanna gerir því góð skil, nútímaleg og hefðbundin í senn.

mánudagur, mars 13, 2000

Bat Out of Hell

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti í Loftkastalanum
mánudagskvöldið 13. mars 2000

Söngleikur utan um tónlist Meatloaf og Jim Steinman
Höfundur og leikstjóri: Guðmundur Rúnar Kristjánsson
Tónlistarstjóri: Matthías Matthíasson
Dansar: Ástrós Gunnarsdóttir

Hvert þó í heitasta

ÞETTA er greinilega málið í dag, taka gamla tónlist, skrifa einfalda sögu kringum efni textanna, breyta þeim síðan smávegis og aðlaga að efnisþræðinum. Fyrst var það Thriller Verslunarskólans og núna "Hin Heljarheimta Leðurblaka" kórdrengsins og og fitubollunnar Meatloaf. Og aftur gengur dæmið upp. Fyrirfram hefði ég ekki trúað því, í hvorugt skiptið.
Bæði verkin hefðu samt átt að fá önnur nöfn. Fyrir nú utan hvað ensk nöfn eru kjánaleg á jafn rammíslenskum leikritum þá eru þau bæði efnislega út í hött, þökk sé frelsi því sem handritshöfundarnir taka sér báðir frá innihaldi söngvanna.
Blakan snýst reyndar um kosmíska krafta himna og heljar. Þegar ofurtöffarinn Barði deyr og mætir skapara sínum þá virðist hans bíða hin verri vist. En þó hann sé dálítið vanþroskaður þá er hann ekki vitlaus og tekst að benda Drottni á formgalla í kristindómnum og fær skilorðsbundin dóm. Ef honum tekst að koma óframfærnum nafna sínum og fyrrum unnustu sinni saman og iðrast synda sinna í leiðinni þá er hann hólpinn. Þetta reynist vitaskuld þrautin þyngri, en honum tekst þó að koma auga á villu sinna fyrri vega og þá sannast hið lúterska viðkvæði, maðurinn frelsast fyrir náð og allt fellur í löðina ljúfu fyrir tilstilli Drottins.
Eins og Thriller minnti á Pilt og Stúlku þá ber Blakan sín séríslensku einkenni. Skrattinn er til að mynda jafnlítill bógur og hann hefur verið í huga Íslendinga frá því Séra Sæmundur í Odda var á dögum. Þá var Guð fönguleg stúlka, eins og ku vera í lagi að trúa nútildags.
Sýningin er bráðskemmtileg. Guðmundur Rúnar skrifar kraftmikil og fyndin samtöl og rekur lið sitt áfram af fítonskrafti, reyndar fóru leikararnir stundum fram úr sér og keyrðu á veggi. Samt var mesta furða hvað þeim tókst að halda sér á flugi. Tónlistin var óaðfinnanleg, klisjuskotið remburokk Steinmans og Kjöthleifsins léku í höndum hljómsveitarinnar og börkum leikhópsins. Fremst meðal jafningja á því sviði var Þórdís Elva Þorvaldsdóttir í hlutverki stúlkunnar sem þeir nafnar elska. Hún hafði líka greinilega fengið að vera stikkfrí í gassaganginum og myndaði jarðtengingu fyrir sýninguna í heild.
Barðarnir voru aldeilis ágætlega komnir hjá Sigursteini Stefánssyni og Eiríki Steini Bogasyni. Eiríkur komst aðdáanlega langt í "slappstikkinu" sem leikstjórinn hafði lagt á han og það gustar af Sigursteini sem töffaranum framliðna. Steindór Gunnar Steindórsson var Kommi, töffari af rembulegustu sort. Hann gerði vel, dansatriðið hans var dásamlegt og stóð upp úr fremur andlausri kóreógrafíunni. Eðvald Atli Birgisson gerði sér fullan mat úr vel heppnuðum "einlínu"-texta Afans. Guð var bæði yfirnáttúruleg og spaugsöm hjá Söru Bjarneyju Jónsdóttur og Valur Gunnarsson var bráðfyndinn sem Andskotinn misheppnaði. Það kom ekkert að sök þó hlutverkinu væri nánast ofaukið og hefði enga þýðingu í framvindunni, Valur nýtti vel tækifæri sín til að gera þetta að skemmtilegum skrattakolli.
Leikmynd var ágætlega af hendi leyst, en undarleg var tregða leikstjórans við að leyfa leikurum að nota dyrnar sem voru út um allt á henni. Innkomuleiðirnar til hliðanna sem hann notaði mun meira voru vandræðalega þröngar. Söngleikur með framliðnum mótorhjólatöffurum, Guði almáttugum og hinum falla engli ætti ekki að kalla á neitt átakanlega mikið raunsæi í innkomum.
Hvað um það, stórskemmtilegur rokksöngleikur hefur bæst við magran sjóð okkar af slíkum verkum. Bat out of Hell er hörku sýning og handritið alls ekki einnota. Hvað á svo að gera að ári? Má maður biðja um óskalög?

laugardagur, mars 11, 2000

Daumur á Jónsmessunótt

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði
Menntaskólanum á Ísafirði mars 2000
Eftir William Shaksespeare
Þýðing: Helgi Hálfdanarson
Leikstjóri: Sigrún Sól Ólafsdóttir

Þrír heimar

DRAUMUR á Jónsmessunótt er efalaust eitt skemmtilegasta leikrit sem skrifað hefur verið. Fyrir nú utan hvað hann gleður áhorfendur einatt í sinni þá er Draumurinn líklega það verka Shakespeares sem er opnast fyrir ólíkum túlkunum og uppátækjum leikstjóra. Sum verkanna taka tilraunum svona eins og hverju öðru hundsbiti, gömul og ráðsett og vita betur. Draumurinn virðist hins vegar mæta hverjum leikhóp og leikstjóra með galopin barnsaugu, til í hvað sem er, síungur og þess vegna sívinsæll.

Sýning leikfélags Menntaskólans á Ísafirði er afbragðsgóð. Fjörug, fyndin og stútfull af snjöllum og góðum hugmyndum. Það var til að mynda gaman að sjá sérstaka leikskrá fyrir Pýramus og Þispu, leikritið í leikritinu. Snjallasta hugdettan var þó að stækka eitt álfahlutverkið, gera eina álfadísina að fylgdarmær hrekkjalómsins Bokka og skipta textanum hans á milli þeirra. Þetta bauð upp á skemmtilegt samspil sem Brynjar Már Brynjólfsson og Herdís Anna Jónsdóttir nýttu vel.

Önnur breyting, sem er reyndar að verða viðtekin venja ef marka má nýlegar uppfærslur á Draumnum, er að gera Egeif, föður Hermíu, að móður hennar. Þetta gengur fullkomlega upp og Ester Ösp Guðjónsdóttir var ekki í vandræðum með að gera "Eigeifínu" að flagði sem kom næsta lítið við þó mannsefnið sem hún hafði valið dóttur sinni væri henni ekki að skapi.
Eitt uppátæki leikstjórans var mér þó lítt að skapi. Á nokkrum stöðum kýs hún að láta persónurnar bresta í söng og flytja mál sitt syngjandi þekkt lög sem falla misvel að texta Shakespeares. Þetta á ágætlega við í sýningu handverksmannanna en miður annarsstaðar, og alveg ljóst að leikurunum er fullkomlega treystandi til að gera textann lifandi og áhrifaríkan á "venjulegan" hátt. Notkun tónlistar var að öðru leyti ágæt og Suðausturevrópsku stefin áttu sérlega vel við í þessum skógi.

Það er reyndar áberandi hvað ljóðrænn og upphafinn textinn leikur eðlilega í munni menntskælinganna. Fremst meðal jafningja að þessu leyti er trúlega Sigríður Gísladóttir sem gerði Títaníu að einni eftirminnilegustu persónu sýningarinnar, sem er hreint ekki sjálfsagt að hún sé. Atriðið þegar Títanía vaknar og lítur Spóla vefara með asnahausinn augum í fyrsta sinn hef ég ekki séð fallegar gert, reyndar ekki jafn fyndið heldur, því Jón Kristinn Ragnarsson var alveg óborganlega hræddur við þessar furðuverur, sem vonlegt er. Leikflokkur handverksmannanna var vel skipaður og Greipur Gíslason var skemmtilega uppburðarlítill leikstjóri hans, enda fór sem fór með sýninguna.

Draumurinn hefur þann kost umfram mörg verka Shakespeares að þar eru nokkuð mörg bitastæð hlutverk. Mest mæðir þó á þeim sem kljást við elskendurna fjóra sem tapa áttum í skóginum þessa nótt, en ná þeim svo aftur sem aldrei fyrr. Hér tókst vel til með þau öll. Hermía Þórunnar Önnu Kristjánsdóttur var greinilega vön að fá sitt fram, Judith Amalía Jóhannsdóttir var skemmtilega ástsjúk Helena, Friðrik Hagalín Smárason var flagaralegur Lýsander og Haukur Sigurbjörn Magnússon hæfilega slepjulegur sem tengdamömmudraumurinn Demetríus.

Fleiri leikara mætti telja upp og hrósa, því sýningin er verk hópsins alls, og leikstjóra hans sem hefur náð að skapa heilsteypta sýningu og láta þrjá heima aðals, verkalýðs og álfa, birtast í "hljómríkum misklið" á Sal MÍ, og hverfa síðan aftur inn í draumalandið.

laugardagur, mars 04, 2000

Þrek og tár

Leikfélag Menntaskólans að Laugarvatni
Menntaskólanum að Laugarvatni 4. mars 2000

Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Leikstjóri: Ingunn Jensdóttir
Hljómsveitarstjóri: Malcolm Holloway

Þrek er gull

AÐ sumu leyti finnst mér Þrek og tár vera besta leikrit Ólafs Hauks til þessa. Það er eins og allir vöðvarnir sem hann hnyklar svo ótæpilega í sumum fyrri verkum sínum séu komnir á sinn stað, undir yfirborðið, og gegni þar því hlutverki að hreyfa beinagrindina án þess að vera sjálfir til sýnis. Þetta heppnast að mínu viti aðdáanlega vel. Eitruð snjallyrðin sem einkenna stíl Ólafs eru enn til staðar, en tempraðri en oft áður. Verkið dansar þokkafullann línudans milli hláturs og harma, drama og gamans. Tónlistin breiðir síðan rósrauða rómantíska fortíðarþrárslæðu yfir allt saman.

Þrek og Tár hefur bæði nokkuð augljósa kosti og galla sem viðfangsefni menntaskólaleikfélags. Persónufjöldinn og tiltölulega jafnt vægi hlutverka er tvímælalaust kostur, en sú staðreynd að verkið fjallar um þrjár kynslóðir gerir menntskælingum vissulega erfitt fyrir, enda lítið um eilífðarstúdenta nútildags. Þá geta þær afdráttarlausu kröfur sem verkið gerir til tónlistarhæfileika þorra leikenda verið þungar í skauti.

Sýning Leikfélags Menntaskólans að Laugarvatni nær þegar best lætur að skila áhrifamætti verksins að fullu. Þetta á sérstaklega við um blíðari og rómantískari hluta verksins. Bæði gamansömu og dramatísku atriðin liðu nokkuð fyrir þann stíl sem leikstjóri sýningarinnar hefur valið að leggja til grundvallar. Ýkjukenndur leikur verður aðeins til þess að draga máttinn úr gríninu sem stendur fyrir sínu þótt leikið sé af einlægni og alvöru. Framan af var þetta óþarflega áberandi en eftir því sem undiraldan verður þyngri varð sýningin betri og að lokum býsna áhrifamikil.

Leikarahópurinn er stór en nokkra langar mig að nefna sérstaklega. Jóhann Árnason er í hlutverki hins breyska en lífsvitra kaupmanns og nær ágætlega að virka sannfærandi sem ættfaðir jafnaldra sinna. Jóhanna F. Sæmundsdóttir var einkar áhrifamikil í hlutverki jesúbarnsins Mínu og Brynja Hjörleifsdóttir gerði vel sem ógæfusama eiginkonan sem finnur hamingjuna að lokum. Þá var Jón Ólafur Ármannsson afbragðsgóður sem Davíð, drengurinn á leið út í lífið. Fjölmargir aðrir taka þátt í sýningunni og eiga góða spretti. Þó verð ég að nefna að á köflum var illmögulegt að skilja hvað sumir leikenda voru að segja. Ég hef lesið Þrek og Tár, séð það þrisvar sinnum á sviði og tvisvar í sjónvarpi og þekki textann því allvel en samt skildi ég stundum alls ekki hvað verið var að segja. Hér hefði leikstjóri átt að hafa fastara taumhald.

Tónlistin er einn helsti lykill verksins og tókst á köflum ágætlega að skila henni. Hljómsveitin var vel spilandi og hafði hinn rétta tímabilstón. Af söngvurum mæddi mest á Kristínu Th. Þórarinsdóttur sem hefur hlýja og fallega söngrödd sem hæfir vel þessari tónlist. Kristín stóð sig með prýði, sem og aðrir söngmenn.

Þrek og tár er falleg og áhrifamikil mannlífsmynd, með ljósi og skuggum í bland. Sýning Laugvetninga náði á köflum að vera þannig samstíga verkinu að heildarútkoman verður að teljast fjöður í hatt félagsins og ánægjuleg leikhúsminning fyrir áhorfendur.